Home Fréttir Í fréttum Hafnartorgið tilbúið til útleigu eftir sextán mánuði

Hafnartorgið tilbúið til útleigu eftir sextán mánuði

181
0
Mynd: pk_arkitektar_Hafnartorg

Verslunar- og þjónusturými á jarðhæðum Hafnartorgs verður tilbúið eftir um sextán mánuði en þar verður eitt dýrsta fermetraverðið í borginni. Skipuleggjendur þess skora á þá sem hyggjast byggja næst Hörpu að drífa sig þannig að hægt verði að loka öllu því sári sem blasað hafi við á þessum stað í um áratug

<>

Hafnartorgið er byggingarsvæði í dag. En byggingarnar sjö sem þar eiga að vera rísa nú hver á fætur annarri upp úr grunninum. Þegar þeim verður lokið mun götmyndin við Lækjargötu gjörbreytast.

Reginn kynnti á fimmtudag hvað er í boði fyrir verslun og veitingastaði á jarðhæðum húsanna á Hafnartorgi. En nú þegar hafa náðst samningar við Hennes og Mauritz (H&M) sem verður með verslun sína á fyrstu og annarri hæð húss sem mun standa við Lækjargötu.

Sturla Eðvarðsson framkvæmdastjóri Smáralindar og verkefnisins við útleigu verslunar og þjónustuhúsnæðisins á Hafnartorgi segir að Reginn muni leigja út 8.600 fermetra á jarðhæð húsanna og að hluta til á annarri hæð og í kjallara. En einn þriðji rýmis í húsunum fer í þennan rekstur og það sem eftir er skiptist jafnt milli íbúðarhúsnæðis og skrifstofa á vegum ÞG verktaka.

Hvað sjáið þið fyrir ykkur að margir aðilar geti komið sér þarna fyrir?

„Þetta geta orðið svona tíu til fimmtán aðilar sem geta komið sér fyrir með góðu móti á þessu svæði,“ segir Sturla.

Megináhersla verði á að fá tískuvöruverslanir og veitingastaði í bland við aðra verslun. Það sé mikilvægt að búið sé að fá akkerisaðila með mikið aðdráttarafl eins og HM á staðinn.

„Þetta verður náttúrlega ekki ódýrasta húsnæðið í bænum að leigja? Nei það verður það ekki. En þetta verður eitt glæsilegasta verslunarhúsnæðið í miðbæ Reykjavíkur. Við erum kannski ekki endilega að leita eftir hæsta verðinu. Við erum að leita eftir bestu samsetningunni á verslunum sem völ er á. Tl þess að geta búið til þennan styrkleika sem miðbærinn þarf í verslun,“ segir Sturla.

Stefnt er að því að afhenda leigutökum húsnæðið um mitt næsta ár þannig að starfsemi geti hafist í því haustið 2018. Þá lokast hluti af því stóra sári sem verið hefur gapandi í miðborginni frá því fyrir hrun. Sturla segir brýnt að loka því einnig næst Hörpu þar sem meðal annars á að reisa hótel og nýjan Landsbanka.

„Það þarf auðvitað að klára þessi mál. Það eru bílastæðamál í kjallaranum sem þarf að huga að. Þetta á allt að tengjast saman, bílastæðaaðstaðan í Hörpu, undir Hafnartorginu og öllu þessu svæði sem tengist hótelinu og Landsbanka lóðinni. Þannig að það er mikilvægt að fara að klára svæðið í heild sinni,“ segir Sturla Eðvarðsson.

Heimild: Visir.is