Home Fréttir Í fréttum Kársnesskóli rýmdur vegna raka og myglu

Kársnesskóli rýmdur vegna raka og myglu

301
0
Rýma þarf Kársnesskóla í Kópavogi vegna mikilla rakaskemmda og myglu. Rúmlega 200 nemendur verða fluttir. Starfsfólk og nemendur hafa fundið fyrir óþægindum.

Kársnesskóli í Kópavogi er í tveimur byggingum. Í annarri þeirra, 60 ára gamalli byggingu sem hýsir nemendur í 1. til 4. bekk, uppgötvaðist nýlega mikill raki.

<>

„Þegar við byrjuðum viðgerðirnar komu alltaf í ljós meiri og meiri skemmdir og meiri og meiri rakaskemmdir,“ segir Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla. „Og það vatt þannig upp á sig að þessi ákvörðun var tekin í bæjarráði að rýma skólann og fara með nemendur í húsnæði bæjarins í Fannborg og eins í Vallargerði þar sem hinn helmingur skólans er.“

Börnin njóta vafans

Alls verða rúmlega 200 nemendur fluttir á milli húsa. Flest bendir til þess að ráðast þurfi í umfangsmiklar viðgerðir á húsnæðinu.

„Í raun og veru tók steininn úr þegar við sáum vegginn sem er inni á starfsmannastofunni, þá fannst okkur eiginlega komið nóg.“

Það er töluverður raki hérna en hefur fundist einhver mygla?

„Já það fannst mygla í skólastofum.“

Hafa einhverjir veikst, nemendur eða starfsfólk?

„Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það en jú, starfsfólk hefur fundið fyrir óþægindum. Einhverjir foreldrar hafa farið með börnin sín í ofnæmispróf vegna öndunarfæraóþæginda. Það er ekkert próf sem segir að þetta sé mygla en við rekjum það að sjálfsögðu til þessa. Við getum ímyndað okkur að þetta sé eitthvað sem veldur óþægindum og við viljum alltaf láta börnin njóta vafans,“ segir Björg.

Sýni tekin

Kópavogsbær sendi frá sér tilkynningu í dag vegna málsins. Hún er svohljóðandi:

Endurbætur á húsnæði Kársnesskóla við Skólagerði hafa staðið yfir í vetur. Talið hafði verið að rakaskemmdir í byggingunni væru staðbundnar. Nýverið kom svo í ljós að þær kunna að vera dreifðari en talið hafði verið og bendir því flest til að ráðast þurfi í umfangsmiklar viðgerðir á húsnæðinu. Tekin hafa verið ný sýni víða í byggingunni en niðurstöður þeirra liggja ekki fyrir.

Vegna þeirrar óvissu og þess hversu líklegt er að ráðist verði í umfangsmeiri viðgerðir en ráðgert hafði verið, hafa bæjaryfirvöld í samráði við skólastjórnendur  ákveðið að flytja nemendur úr vesturálmu hússins á meðan á viðgerð stendur.

Kársnesskóli við Skólagerði hýsir 1. til 4. bekk Kársnesskóla. Nemendur 1. bekkjar munu verða áfram í byggingunni, í álmu sem er nýuppgerð en nemendur 2. til 4. bekkjar verða fluttir í húsnæði Kársnesskóla við Vallargerði. Þá verða útbúnar kennslustofur fyrir nemendur  9. og 10. bekkjar í bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar, á 1. hæð Fannborgar 2 en sú hæð var endurgerð árið 2006, og þá verður útbúin kennslustofa í Fannborg 6. Stefnt er að því að þessir flutningar eigi sér stað þann 10. mars, þegar nemendur 9. og 10. bekkjar hafa lokið samræmd könnunarprófum.

Bæjarstjórn Kópavogs mun funda í Gerðarsafni á meðan bæjarstjórnarsalurinn verður tekinn undir kennslu.  

Foreldrum nemenda hefur verið sent bréf með upplýsingum um flutningana þar sem fram kemur að leitast verði við að sem allra minnst rask verði á námi nemenda við tilfæringarnar. Stefnt er að því að viðgerð við húsið verði lokið eins fljótt og auðið er.

Þess má geta að bæjarráð Kópavogs samþykkti 16. febrúar að stofna vinnuhóp um framtíðarskipulag og þróun húsnæðis Kársnesskóla. Við þá vinnu verður litið til endurnýjunar núverandi húsnæðis og stækkun skólans til framtíðar.

Heimild: Ruv.is