Home Fréttir Í fréttum Rektor MS: „Nýbygging í ólagi, víða handvömm“

Rektor MS: „Nýbygging í ólagi, víða handvömm“

242
0
Mynd: Ruv.is
Snævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ríkiseigna, segir að Menntaskólinn við Sund sé farinn að greiða leigu af nýbyggingu skólans sem styr hefur staðið um vegna frágangs. Ríkiseignir hafi tekið við umsjón með húsinu. „Þó ekki á því sem ágreiningur er um og á eftir að útkljá,“ segir Snævar.

Ríkiseignir fengu Verkfræðistofuna Eflu til að skoða bygginguna og gerði hún í júní í fyrra yfir 200 athugasemdir og benti á 915 sýnileg tilvik þar sem þyrfti að gera úrbætur. Samkvæmt útboðslýsingu áttu verklok að vera í lok júní 2015. Í fréttum RÚV í nóvember kom fram að stefnt væri að verkinu yrði lokið fyrir áramót.

<>

Verkkaupar nýbyggingarinnar eru Mennta-og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg. Framkvæmdasýsla ríkisins heldur utan um verkefnið.

Snævar segir að Framkvæmdasýsla ríkisins sé að reyna að fá mál útkljáð með verktakanum. „Svo eru önnur atriði sem hefðu átt að vera í verklýsingunni og hefði þurft að raka afstöðu til. Síðan verða einhver verkefni sem við verðum að taka yfir til þess að ljúka þessu. Það eru alls konar frágangsmál sem teljast ekki stór en þarf að sinna.“

Áhersla lögð úrbætur á eldvörnum

Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins segir að aðaláhersla hafi verið lögð á úrbætur á nýbyggingu Menntaskólans við Sund vegna athugasemda sem fram komu í skýrslu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Halldóra segir að Ríkiseignir hafi tekið við rekstri hússins um áramótin. „Við höfum afhent þeim mannvirkið þótt áfram sé unnið að þessum úrbótum. Það er búið að ljúka við allar úrbætur nema þrjár og við höfum upplýst byggingarfulltrúa um þær,“ segir Halldóra. „Tvær af athugasemdum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem eru eftir snúa að rekstraraðilanum, Menntaskólanum við Sund, og sú þriðja að byggingunni.“

Már Vilhjálmsson rektor MS segir að búið sé að ljúka frágangi á eldvarnahólfum, en það var eitt af því sem sett hafði verið út á. Sex eldvarnarhólf eru í skólanum og reyndust sumar hurðir á milli hólfanna vera ótengdar og aðrar ónýtar vegna raka.
„Síðan hættu iðnaðarmenn að mæta, hér sést ekki sála og það er ekki búið að afhenda bygginguna,“ segir Már. Búist hafi verið við því að hægt yrði að afhenda bygginguna í ár. „En við vitum ekkert, hvorki ég né Framkvæmdasýslan um það í hvaða ástandi byggingin verður þegar hún verður afhent. Sumt liggur undir skemmdum því ekkert er gert í því.“

Már segir að úttekt slökkviliðsins komi byggingarmálunum ekkert við. Ótalmargt sé óklárað. „Efnafræðistofan og efnageymslan er ónothæf 14 mánuðum eftir að byggingin var tekin í notkun. Húsið er ófrágengið og handvömm víða og ekkert verið að gera í þessu.“

Halldóra Vífilsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmdasýslunnar, segir að ekki sé búið að lagfæra öll þau atriði sem fram koma í skýrslu Eflu. „Við höfum gert athugasemdir við þau atriði sem snúa, að okkar mati, að verktaka.  Aðaláhersla hefur verið lögð á úrbætur vegna athugasemda sem fram komu í skýrslu slökkviliðsins. Einnig að lúkningu verktaka við verkið samkvæmt samningi. Skýrsla Eflu tók einnig á atriðum utan samnings.“ Framkvæmdasýslunni sé ekki heimilt að láta framkvæma verkþætti sem séu utan samnings og ekki samþykkt og fjármögnuð af verkkaupa.

Vill óháða úttekt

Már rektor segir að hann hafi fyrir áramót undirritað leigusamning fyrir nýbygginguna. Það sé lágmark að óháður aðili geri úttekt á því í hvaða ástandi byggingin sé afhent. „Efla gerir úttekt á sjónrænt athugaverðum tilvikum. Það þyrfti óháður aðili að fara yfir hvað hefur verið gert, ekki veit ég það, og í hvaða ástandi er verið að afhenda bygginguna. Af hverju er ekki gerð úttekt á hönnuninni? Það er ýmislegt sem hefur verið illa unnið.“

Már segir verkinu ekki lokið. „Um alla bygginguna, hér og þar, eru hlutir sem eru í ólagi og fáránlegt að ekki sé gengið frá. Ég hef spurst fyrir um afhendingu og hvenær hún verði en fæ bara þau svör að þetta sé í farvegi.“

Hann gagnrýnir að enginn vilji taka ábyrgð á viðhaldi byggingarinnar. „Því það er ekki búið að afhenda, eða taka við og enginn veit hver á að borga reikningana.“

Fram kom í fréttum RÚV í nóvember að heildarkostnaður við verkið væri 1,5 milljarðar króna sem er um 170  milljónum umfram upphaflegar áætlanir.

Heimild: Ruv.is