Home Fréttir Í fréttum Undirbýr átak í uppbyggingu á aðalleiðum út frá Reykjavík

Undirbýr átak í uppbyggingu á aðalleiðum út frá Reykjavík

108
0
Mynd: Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Hægt yrði að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu á aðal umferðarleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut, ef komið verður á sérstakri gjaldtöku á þessum leiðum sem fjármagna myndi framkvæmdir. Slík gjaldtaka myndi flýta mjög uppbyggingu á þessum leiðum sem yrði annars ekki ráðist í á næstu árum með hefðbundnum framlögum til samgöngumála eins og þau hafa verið.

Þetta kom fram í máli Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á morgunverðarfundi um vegakerfið, umferðaröryggi og samfélagslega ábyrgð, sem Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök fjármálafyrirtækja efndu til í dag.

07.02.2017 Undirbýr átak í uppbyggingu á aðalleiðum út frá Reykjavík

Jón Gunnarsson sagði stórfelld vandamál í vegakerfinu blasa við sem kölluðu á bráðaaðgerðir og tölur sýndu að um 60% umferðarslysa yrðu á suðvesturhorni landsins. Hann sagði mörg viðhaldsverkefni framundan, svo og nýframkvæmdir og unnið væri að forgangsröðun í ráðuneytinu í samráði við Vegagerðina. Því færi fjarri að unnt væri að fara af stað með öll þau verkefni sem samgönguáætlun kveður á um og finna yrði nýja sýn á markmiðin og nýjar leiðir til að ná þeim.

Ráðherra mun skipa starfshóp til að kanna útfærslu þessarar hugmyndar, hvernig gjaldtöku yrði háttað svo og framkvæmdum og nefndi hann þrjú verkefni: Að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur, að tvöfalda Suðurlandsveg milli Reykjavíkur og Selfoss og jafnvel austar og með nýrri brú á Ölfusá og tvöföldun Vesturlandsvegar milli Borgarness og Reykjavíkur og þar með tvöföldun Hvalfjarðarganga. Ráðherra lagði áherslu á að í þessum efnum yrði að hugsa eftir nýjum leiðum:

Hugsa og framkvæma eftir nýjum leiðum

,,Til þess að ráðast í þessar framkvæmdir verðum við að hugsa og framkvæma eftir nýjum leiðum því það er alveg ljóst að við fjármögnum þetta ekki með hefðbundnu ríkisframlagi. Ég mun fela starfshópi að móta þessar tillögur. Með nýrri sýn og nýrri nálgun í forgangsröðun framkvæmda á helstu stofnæðum út frá Reykjavík, skapast tækifæri til nýrrar forgangsröðunar verkefna á landsbyggðinni sem samgönguáætlun tekur til,“ sagði ráðherra.

Á fundinum var einnig fjallað um umferðaröryggismál og greindi Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, frá tölum um umferðarslys erlendra ferðamanna á Íslandi á síðasta ári. Fram kom í máli hans að 213 erlendir ferðamenn hefðu látist eða slasast í umferðinni á síðasta ári og af þeim hefðu 11 slasast í þéttbýli, hinir úti á þjóðvegum. Langflest slys sem þeir lentu í væru þegar ekið væri útaf eða bílar yltu.

Víðir Reynisson, almannavarnafulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi, ræddi um ástand vegakerfisins og öryggi ferðamanna. Hann sagði 60% fjölgun umferðaróhappa hafa verið milli áranna 2015 og 2016 þar sem eingöngu erlendir ferðamenn ættu í hlut. Hann taldi brýn langtímaverkefni að breikka vegi, fækka einbreiðum brúm og laga erfiða vegarkafla og sem skammtímaverkefni nefndi hann að auka yrði stöðuga fræðslu, bæta merkingar og auka þjónustu og eftirlit. Hann kvaðst gera sér grein fyrir að allir þessir þættir kostuðu fjármuni og lagði áherslu að allir sem sinntu umferðaröryggismálum hefðu með sér náið samráð og samstarf til að ná árangri.

Í lok fundar var efnt til pallborðsumræðna og tóku þátt í þeim Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Ólafur Guðmundsson, fulltrúi EruoRap á Íslandi, Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, og Þorsteinn Þorgeirsson, formaður bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar.

Heimild: Innanrikisraduneyti.is

Previous articleFramkvæmdir við nýjan hafnarbakka utan Klepps eru nú í fullum gangi
Next article21.02.2017 Geirsgata – Kalkofnsvegur, flutningur gatnamóta 2017