Home Fréttir Í fréttum Tryggja verði nægt framboð af byggingalóðum

Tryggja verði nægt framboð af byggingalóðum

82
0
Sveitarfélög verða að tryggja framboð af byggingalóðum, segir framkvæmdastjóri samtaka iðnaðarins. Verulegur skortur sé á lóðum á höfuðborgarsvæðinu og framboð á íbúðum anni ekki eftirspurn næstu árin. Brýnt sé að bjóða upp á byggingalóðir á minna eftirsóttum svæðum svo þar geti risið ódýrari íbúðir.

Átta til tíu þúsund íbúðir vantar hér á landi fram til ársloka 2019, að mati Greiningardeildar Arion-banka. Þrátt fyrir að margar íbúðir séu í byggingu eða undirbúningi vanti áfram eitt til þrjú þúsund íbúðir.

<>

„Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á því að byggingaferlið er langt,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Það tekur 2-3 ár að klára íbúð, þannig að það sem við gerum í ár, skilar sér fyrr en eftir 2-3 ár og jafnvel eftir lengri tíma. En það skiptir mjög miklu máli að sveitarfélög og þeir sem halda á skipulagsvaldinu hafi lóðir klárar til byggingar hreinlega og á því hefur verið ákveðinn skortur sem við köllum eftir að verði lagaður, óháð því hvort sveitarfélög treysti sér til að taka stór eða lítil skref,“ segir Almar.

Miklu skipti að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggi fram skýrar áætlanir um ný byggingalönd. „Auðvitað er til aðalskipulag og annað þess háttar en hvernig leiðin er vörðuð fram að því er aðeins óljósara. Og auðvitað erum við að lenda í því þessi misserin að það er slegist um lóðir. Þær eru oft inni í miðjum hverfum og dýrar eftir atvikum, á dýrum svæðum og það þýðir það að ferlið tefst eða að lóðirnar eru dýrari en ella. Þá erum við eðlilega að byggja dýrt og þá þarf kannski að huga sérstaklega að því að við séum líka að byggja á svæðum sem eru ekki eins dýr og svona miðsvæðin á öllu höfuðborgarsvæðinu eru. Og þá er ég að tala um önnur sveitarfélög en bara Reykjavík,“ segir Almar.

Heimild:Ruv.is