Home Fréttir Í fréttum Sundhöllin í Reykjavík stendur í íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal

Sundhöllin í Reykjavík stendur í íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal

242
0
Úlfarsárdalur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk kaldar móttökur þegar hann kynnti verkáætlun vegna byggingar skóla-, íþrótta- og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal og Grafarholti á opnum íbúafundi í kvöld. Íbúar í hverfunum kepptust við að lýsa óánægju sinni með hægagang framkvæmdanna og fyrirhugaðan framkvæmdatíma.

<>

Samkvæmt verkáætluninni verður ekki lokið við framkvæmdirnar fyrr en árið 2022 þegar sundlaugin í verður opnuð í hverfinu. Þær áætlanir, um að ljúka framkvæmdunum á opnun sundlaugar, voru gagnrýndar mjög en segja má að bygging útilaugar við Sundhöllina í Reykjavík hafi staðið í fundargestum. Spurðu margir af hverju sú framkvæmd yrði kláruð áður en sundlaugin í hverfinu.

„Er það vegna þess að þú býrð í miðbænum?“ spurði til að mynda einn fundarmanna en Dagur B. er búsettur í miðbæ Reykjavíkur og er Sundhöllin sundlaugin í hverfinu hans. Hiti var í fundarmönnum þegar opnað hafði verið fyrir spurningar úr sal en fundurinn hófst á kynningu Dags og stuttri ræðu formanns íbúasamtaka í Úlfarsárdal.

„Ég er geri bara aðeins athugasemd við það þegar þessu eru stillt upp eins og einhverju stríði á milli borgarhluta eða hverfa,” sagði Dagur sem augljóslega var orðinn þreyttur á samanburðinum við Sundhöllina. „Við erum með metnað fyrir alla hluta borgarinnar.“

„Þegar sundlaugaforgangsröðun var ákveðin var horft yfir borgina og athugað hvar eru þau svæði í borginni þar sem ekki er hægt að komast gangandi eða hjólandi í sundlaugar utandyra,” segir hann. Niðurstaðan úr þeirri úttekt var að þörf væri á útilaug við Sundhöllina, í Fossvogi og í Úlfarsárdal og Grafarholti.

„Þó að Fossvogurinn hafi verið lengi í umræðunni þá var þetta svæði hér tekið fram yfir og ákveðið að klára sundhöllina. Það var alltaf gert ráð fyrir útilaug þar og það eru áttatíu ár frá því að hún var byggð. Hún þjónar þrjátíu þúsund manna hverfi,“ sagði hann og bætti við að honum þætti ósanngjarnt gagnvart íbúum í grennd við Sundhöllina að stilla þessu upp „sem annað hvort eða“, eins og borgarstjórinn orðaði það.

Formaður íbúasamtakanna, Kristinn Steinn Traustason, var harðorður í garð borgaryfirvalda. „Það getur varla talist til eðlilegra vinnubragða við uppbyggingu og rekstur hverfa borgarinnar að heilu árgangarnir fari í gengum skólakerfið við þær aðstæður sem okkur eru boðnar upp á hér,“ sagði hann og gagnrýndi hversu langan tíma hefur tekið að koma af stað framkvæmdum.

Kristinn gagnrýndi einnig framkvæmdatímann sem kynntur var íbúum á fundinum. „ Betur má ef duga skal,” sagði Kristinn og uppskar dynjandi lófatak fundargesta. „ Borgin þarf að gera betur en þetta, því þetta köllum við ekki hraða uppbyggingu,” sagði hann.

Byggingin er ansi stór en hún á að tengja saman Grafarholt og Úlfarsárdal.

Vart er hægt að bera saman viðtökur og undirtektir sem Dagur fékk við þær sem Kristinn fékk frá íbúum eftir erindi þeirra.

Á fundinum sagðist Dagur vona að samningar við íþróttafélagið Fram myndu ganga hratt fyrir sig. „Ég vil helst klára þetta öðru hvoru megin við helgi,“ sagði hann í léttum tón.

Ólafur Arnarson, formaður félagsins, var staddur á fundinum en hann var ekki jafn léttur þegar kom að málefnum félagsins og sagðist efins um að viðræðurnar gengu hratt fyrir sig; samningurinn hefði borist félaginu í vikunni og hann væri ekki góður. „Við eigum langt og strangt ferli fram undan,“ sagði hann. „Það er alveg ljóst, samningurinn klárast ekki á einni viku.“

Heimild: Vísir.is