Þetta er í raun viðbygging við það fjós sem fyrir er – þó hún verði auðvitað talsvert stærri en gamla fjósið,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi og húsasmíðameistari í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Þar eru að hefjast framkvæmdir við 240 kúa fjósbyggingu en fjósið verður eitt stærsta fjós á Íslandi. Bændablaðið greinir frá þessu en Sunnlenska fjallaði um væntanlega fjósbyggingu í fyrrasumar þegar fjósið var enn á teikniborðinu.
„Þessi framkvæmd á sér nokkuð langan aðdraganda – en þar sem maður vill vera sjálfur að mestu með puttana í þessu þá hefur þetta tekið þennan tíma. Það kannski tafði ferlið líka aðeins að ég fór í heilmikla könnun á því hvort það væri hagkvæmt að nýta metangasið frá fjósinu. Það kemur svo í ljós að það myndi ekki vera afgerandi ávinningur af því þannig að ég læt það liggja milli hluta í bili. Hönnunin á fjósinu er hins vegar þannig að ég held þessum möguleika opnum, ef það lítur þannig út að þetta verður vænlegt í framtíðinni. Okkar niðurstaða var sú að stærðin á fjósunum þarf að vera svo gríðarleg til að eitthvað væri upp úr því að hafa,“ segir Arnar í samtali við Bændablaðið.
Heildarstærð á grunnfleti verður um 4.500 fermetrar og að hámarki verða þar 240 mjólkandi kýr og fjórir mjaltaþjónar til að þjóna þeim. „Við hugsum þetta fjós sem ársstarf fyrir konu og karl í koti sínu,“ segir Arnar ennfremur.
Kúabúskapurinn gengur vel í Gunnbjarnarholti hjá þeim Arnari og Berglindi Bjarnadóttur, konu hans, og er búið jafnan ofarlega á árslistum um afurðahæstu búin í niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar. „Já, það hefur gengið sérstaklega vel þessi síðustu 6–7 ár en það eru um 25 ár síðan við byrjuðum í þessu,“ segir Arnar Bjarni, sem reiknaði með að byrja fjótlega að moka fyrir nýja fjósinu.
Heimild: Sunnlenska.is