Home Fréttir Í fréttum Mislæg gatnamót verða að veruleika á Reykjanesbraut

Mislæg gatnamót verða að veruleika á Reykjanesbraut

159
0

Hafnarfjarðarbær fagnar ákvörðun nýs samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar, um að ráðist verði í útboð og gerð mislægra gatnamóta á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar strax í upphafi á þessu ári. Gatnamótin eru mikið öryggismál fyrir m.a. íbúa Vallahverfis og alla þá sem erindi eiga á stækkandi atvinnusvæði í Hellna- og Kapelluhrauni.

<>

Mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar eru orðin löngu tímabær framkvæmd og þau T-gatnamót sem nú eru á svæðinu barn síns tíma. Umferð á Reykjanesbraut, til og frá Keflavík, hefur vaxið svo um munar síðustu ár og eru aðstæður í og við gatnamótin stórhættulegar eins og fjöldi árekstra og slysa á svæðinu síðustu mánuði og ár bera glöggt vitni.

„Ég fagna mjög staðfestingu ráðherra á því nú í morgunsárið að framkvæmdir við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar fari af stað í upphafi þessa árs. Ég vænti þess að hlutirnir gangi nokkuð hratt fyrir sig, að verkið fari í útboð á næstu vikum og samið verði við væntanlegan verktaka um að framkvæmdir hefjist á vormánuðum og verði lokið fyrir árslok.“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

„Þetta er svo sannarlega skref í rétta átt og geri ég ráð fyrir að tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð ljúki í kjölfarið. Þetta tvennt verður að haldast í hendur“.

Það er óhætt að segja að Hafnarfjörður hafi setið eftir þegar kemur að útdeilingu fjármuna vegna framkvæmda við stofnvegakerfið. Þessi ákvörðun markar því ákveðin tímamót. Fleiri brýn verkefni liggja fyrir í uppbyggingu stofnvegakerfisins í gegnum bæinn en auk gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar eru tvenn gatnamót í kerfinu sem löngu eru hætt að anna þeirri umferð sem um þau fara.

Hlíðartorg er hringtorg á gatnamótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu/Hlíðarbergs. Þau gatnamót eru yfirfull í dag og á álagstímum ná bílaraðir langleiðina að Straumsvík.

Nauðsynlegt er að auka flutningsgetu þessa hringtorga með einhverju móti og koma með varanlegar lausnir sem auka öryggi allra hlutaðeigandi.

Einnig þarf að horfa til gatnamóta Fjarðarhrauns og Reykjanesbrautar við Kaplakrika.

Bæjaryfirvöld, fyrirtæki og íbúar hafa kallað eftir framkvæmdum

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur um langt skeið skorað á Alþingi að veita fjármagni í framkvæmdina auk þess sem fyrirtæki og íbúar á svæðinu hafa haldið fundi og sent öllum hlutaðeigandi erindi um áhyggjur sínar af stöðu mála. Fyrir nákvæmlega ári síðan héldu fyrirtæki á Hellnahrauni og Selhrauni samstöðufund sem sneri fyrst og fremst að bættu öryggi á svæðinu.

Iðnaðarsvæðið þykir eitt af bestu iðnaðarhverfunum á Íslandi í dag og eru stækkunarmöguleikar þar töluverðir. Á fundi þrýstu fyrirtækin á framkvæmdir við mislæg gatnamót gagngert til að tryggja öryggi starfsmanna sinna og viðskiptavina, sem og allra þeirra sem leið eiga um hverfið.

Bið eftir aðgerðum hefur haft áhrif á vöxt og frekari uppbyggingu á svæðinu þar sem áhugasöm fyrirtæki hafa sett það fyrir sig að byggja upp starfsemi eða flytja á svæðið vegna þessa. Þessi ákvörðun og fyrirliggjandi framkvæmd hefur því gríðarleg áhrif á daglegt líf og frekari uppbyggingu. Fjöldi fyrirtækja á Hellnahrauni, Selhrauni og á Völlunum er í kringum 160 og ætla má að starfsmenn séu a.m.k. 1.700 talsins. Stór hluti starfsmanna þessara fyrirtækja, íbúar á svæðinu sem eru tæplega 5.000 talsins auk gesta og viðskiptavina, sem sækja þjónustu á svæðið, fer um þau T-gatnamót sem til staðar eru í dag og sett voru upp sem tímabundin lausn meðan svæðið var í uppbyggingu. Um gatnamótin aka a.m.k. 217.000 stórir flutningarbílar á ársgrundvelli eða að meðaltali 93 trukkar á klukkustund (virka daga frá kl. 7:30 – 18) samkvæmt tölum frá sex stórum fyrirtækjum á svæðinu auk annarrar umferðar sem teknar voru saman samhliða fundi fyrirtækjanna í upphafi síðasta árs. Gera má ráð fyrir að þessar tölur hafi aukist síðan þá.

Heimild: Hafnarfjörður