Home Fréttir Í fréttum Gegnumslag í Vaðlaheiði í febrúar?

Gegnumslag í Vaðlaheiði í febrúar?

126
0

Stefnt er að gegnumslagi í Vaðlaheiðargöngum í lok febrúar eða byrjun mars. Til þess þarf þó allt að ganga upp og framvinda verksins að vera langt yfir meðaltali síðasta árs og því er líklegt að áætluð verklok muni tefjast.

<>

Ágætis gangur hefur verið í greftri Vaðlaheiðarganga síðustu mánuði en unnið er við báða stafna, bæði Eyjafjarðar- og Fnjóskadalsmegin. Farið er að sjá fyrir endann á sjálfum greftrinum.

„Það má búast við því að gegnumslagið verði í mars, við vonumst að það sé svona um mánaðarmótin febrúar-mars en til að það gerist þá þarf að vera sirka 80 metrar á viku að meðaltali. Það má teljast að það séu góð afköst ef það næst,“ segir Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.

Meðaltalið langt undir 80 metrum

Miðað við það hvernig gröfturinn hefur gengið Vaðlaheiðargöngum síðustu ár þá verður að segjast að 80 metrar á viku er heldur ólíkleg framvinda. Til þess þarf allt að ganga upp, sem hefur alls ekki verið raunin hingað til.

Síðustu fimm vikur árins 2016 var framvindan nokkuð langt frá 80 metrum, eins og sést á myndinni hér að ofan. Erfið setlög og þykkt berg veldur töfum, en við slíku má búast í jarðgangagerð. Sé litið á meðaltal síðasta árs kemur í ljós að meðalframvindan í hverri viku voru 39 metrar.

Stefndu að gegnumslagi í október

Í febrúar á síðasta ári sagði Valgeir í viðtali við fréttastofu að stefnt væri að gegnumslagi í október, á síðasta ári. Nú er komið fram í janúar og enn er ekki búið að slá í gegn. Stefnt var að opnun ganganna í lok þessa árs en ljóst þykir að það mun tefjast.

„Þannig að það má gera ráð fyrir að sumarið 2018, þá verði hægt að keyra í gegn. Vonandi fyrir sumarið,“ segir Valgeir.

Unnið að uppfærslu á kostnaðaráætlun

Löngu er orðið ljóst að kostnaður við göngin er kominn fram úr upphaflegri áætlun en nú er unnið að því að uppfæra áætlunina.

„Vaðlaheiðargöng eru búin að vera að vinna núna síðustu mánuði að því að greina áætlaðan endanlegan kostnað og slíkt og nú bíðum við eftir fundi með ráðherrum og öðrum í fjármálaráðuneytinu til að endurmeta stöðuna,“ segir Valgeir.

Heimild: Ruv.is