Home Fréttir Í fréttum Byggðu stafkirkju fyrir Færeyinga

Byggðu stafkirkju fyrir Færeyinga

216
0
Mynd:Ruv.is
Stafkirkja að norskri fyrirmynd hefur risið í skemmu í Bolungarvík. Hún verður hins vegar fljótlega tekin niður aftur og flutt til Færeyja. Smiðurinn segist vera stoltur af smíðinni, það sé mikilvægt að miðla þekkingunni.

Verkið hófst í nóvember 2015 og staf fyrir staf hefur kirkjunni verið púslað saman í ófáum handtökum.

<>

„Þetta er búið að vera langt og skemmtilegt ferðalag. En við erum komnir þó þetta, nánast á leiðarenda,“ segir Guðmundur Óli Kristinsson, húsasmíðameistari hjá GÓK.

Það eina sem er eftir er að taka kirkjuna aftur í sundur, koma henni fyrir í 20 feta gámi og senda til Kvívíkur í Færeyjum þar sem hún verður sett saman á ný í víkingagarði ferðamálafrömuðarins Pouls Hansens. „Ég allavega vona að þetta sleppi alla leið, það verður að vera gott í sjóinn yfir,“ segir Guðmundur.

Kirkjan er um 25 fermetrar og rúmar 34 í sæti. Guðmundur var fenginn í verkið vegna þess hve fáir þekkja handverkið. Smíðin er skissuð upp en mest byggð á þekkingu Guðmundar.

„Svo er maður meira og minna bara með þetta í kollinum. Og verður að vinna eftir því og fletta svolítið upp,“ segir hann.

Guðmundur smíðaði kirkjuna ásamt syni sínum og fleiri smiðum hjá GÓK húsasmíði. „Menn hverfa jú af þessari jörð með litlum fyrirvara. Eins og gengur og gerist.  Það er svolítið spennandi að koma þessu áfram til annarra. Verkþekking á Íslandi ekki í hávegum höfð.“

Mikla þolinmæði þarf til verksins sem smiðirnir hafa þurft að tileinka sér. Þegar Landinn heimsótti Guðmund síðasta vor beið færeyskt par eftir því að gifta sig í kirkjunni.

„Ég hef grun um að þau hafi ekki haft þolinmæði, ekki getað haldið í sér mikið lengur, mig rennur í grun um að svo sé,“ segir Guðmundur.

Guðmundur sleppir verkinu ekki frá sér fyrr en kirkjan hefur verið reist í Kvívík en er sáttur við afraksturinn. „Ég er mjög stoltur af þessu og fyrir hönd piltanna sem hafa unnið með mér að þessu. Við erum afskaplega glaðir og kátir.“

Heimild: Ruv.is