Á kynningarfundinum sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var farið í gegnum komandi starfsár og fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu kynntar. Þá var undirritaður þriggja ára samstarfssamningur Listasafnsins og Ásprents Stíls, sem er einn sex bakhjarla safnsins.
Bætt aðstaða
Áætlað er að framkvæmdum ljúki um mitt ár 2018 og verða þá teknir í notkun nýir sýningarsalir á fjórðu hæð. Aðgengi verður bætt fyrir hreyfihamlaða og barnavagna við innganginn á jarðhæð, ásamt safnbúð og kaffihúsi. Þá segir í tilkynningu að aðstaða fyrir safnkennslu batni til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk fleiri viðburða.
„Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild,” segir í tilkynningunni.
Notast verður við Ketilhúsið í auknum mæli, meðal annars fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur.
Heimild: Ruv.is