Home Fréttir Í fréttum Formaður Félags fasteignasala: Nánast ekkert til af íbúðum sem kosta minna en...

Formaður Félags fasteignasala: Nánast ekkert til af íbúðum sem kosta minna en 30 milljónir

90
0

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, segir að það sem hafi komið á óvart á fasteignamarkaðnum á árinu sem er að líða sé að fasteignaverð hækkaði meira en menn gerðu ráð fyrir. Hækkunin hafi verið hátt í 15 prósent yfir heildina en fyrir fram hafði verið reiknað með því að hækkunin yrði í kringum 10 prósent.

<>

Kjartan ræddi stöðuna á fasteignamarkaðinum í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. Þar kom meðal annars fram að ekki hefði verið nægilega mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár til að anna eftirspurn.

Eins og gefur að skilja hefði það í för með sér mikla hækkun á húsnæðisverði sem kemur ekki hvað síst illa við ungt fólk sem er að reyna að koma sér inn á fasteignamarkaðinn með kaupum á fyrstu eign.

„Það gerist sjálfkrafa að þær eignir sem eru úti á markaðnum verða eftirsóttari og það er enn erfiðara fyrir sérstaklega unga fólkið að komast út á markaðinn. Það er í rauninni búið að hreinsa út allar eignir á markaðnum undir 30 milljónum í dag ef maður fer inn á fasteignavefina það er nánast ekkert til,“ sagði Kjartan.

Þetta háa verð gerði það að verkum að afar erfitt væri fyrir ungt fólk að koma inn á markaðinn.

„Segjum að það kaupi 30 milljón króna eign sem er nánast lágmarksverð fyrir tveggja herbergja íbúð í dag. Gefum okkur það að þú þurfir að hafa 15 prósent eigið fé og eitthvað þarftu að hafa fyrir gjöldum þá ertu kominn upp í hátt í fimm milljónir í eigið fé sem þú þarft að leggja út og það er ekki hver sem er getur lagt þetta út.“

Aðspurður hvort að fasteignasalar finni fyrir þessu sagði Kjartan:

„Við finnum þetta og maður varð fyrir vonbrigðum að ríkisstjórnin hafi ekki gengið lengra í að aðstoða unga fólkið hérna í fyrra þar sem að þessar aðgerðir sem farið var í eru að mörgu leyti góðar þær henta kannski öðrum hópum en unga fólkinu.“

Heimild: Visir.is