Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við Brimketil vel á veg komnar

Framkvæmdir við Brimketil vel á veg komnar

178
0
Mynd: Vf.is Af smíði útsýnispalls sem settur verður upp við Brimketil.

Þeir sem keyrt hafa Nesveginn vestan Grindavíkur undanfarnar vikur hafa tekið eftir framkvæmdum í Mölvík, nánar tiltekið við Brimketil. Þar er unnið að því bæta úr aðstöðu fyrir heimamenn og gesti sem skoða vilja ketilinn og brimið. Framkvæmdum við nýtt bílastæði er að mestu lokið en lokafrágangur er eftir. Þá hefur ÍAV sett upp aðstöðu þar en til stendur að setja upp útsýnispall nú í desember. Verkið hefur gengið vel þrátt fyrir að vera flókið enda aðstæður einstakar. Frá þessu er greint í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar

<>

Brimketill er sérkennileg laug í sjávarborðinu vestast í Staðarbergi. Á sólríkum degi minnir grjótmyndunin helst á heitan pott. Brimketill og katlarnir í nágrenni hans urðu til vegna stöðugs núnings brims við hraunklettana. Þar hefur ytra álag smátt og smátt mótað bolla og katla í basalthraunið.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum í nágrenni Brimketils má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafnu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þessi ferill brýtur bergið smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur á sjávarkletta og laust grjót, og auk þess frostveðrun þegar vatn í glufum þenst út við að harðna, og jafnvel sandblástur. Hraunið umhverfs Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfrborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240, segir jafnframt í blaðinu.

Heimild: Vf.is