Home Fréttir Í fréttum Skoða byggingu knattspyrnuhúss á Selfossi

Skoða byggingu knattspyrnuhúss á Selfossi

260
0

Forsvarsmenn knattspyrnudeildar Selfoss hafa gengið á fund bæjaryfirvalda í Árborg og kynnt fyrir þeim möguleikann á byggingu knattspyrnuhúss með verulegum fjárhagslegum stuðningi knattspyrnuhreyfingarinnar.

<>
Tölvugerð mynd af húsi svipuðu því sem Selfyssingar vilja reisa við Engjaveg.
Tölvugerð mynd af húsi svipuðu því sem Selfyssingar vilja reisa við Engjaveg.

Bæjaryfirvöld hafa sagst skulu skoða málið með tilliti til þess hvenær setja megi skuldbindingar um kostnaðarþátttöku á fjárhagsáætlun. Að líkindum mun slíkt hús ekki kosta meira en 200 milljónir króna. Þar af segjast forsvarsmenn knattspyrnumála á Selfossi geta útvegað 30 milljónir króna, að mestu úr eigin sjóði og með þátttöku KSÍ.

Adolf Ingvi Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, segir að á undanförnum árum hafi komið í ljós hversu erfitt geti reynst að halda úti knattspyrnuæfingum fyrir yngri flokka yfir vetrarmánuðina. Æfingar á gervigrasi hafi fallið niður í margar vikur í fyrra vetur og um skeið í haust líka, þegar snjóa festir.

Dýrt geti reynst til framtíðar að byggja ekki yfir starfsemina, ætli menn sér að viðhalda kröfugu yngri flokka starfi og því hafi verið velt upp þeim möguleika að byggja um 3000 fermetra hús á íþróttasvæðinu við Engjaveg, sem nýtist bæði knattspyrnunni og frjálsum íþróttum að hluta.

„Aðstöðuleysi knattspyrnudeildarinnar yfir vetrartímann er orðið eitt allra stærsta hagsmunamál félagsins. Knattspyrnudeildin hefur í engin hús að vernda þegar völlurinn fyllist af snjó og getur engan vegin staðið við þær skuldbindingar sem hún hefur tekið að sér gagnvart iðkendum og foreldrum þeirra,“ segir Adolf.

Knattspyrnudeild hafi því sett á oddinn að byggt verði lítið knattspyrnuhús og starfshópur hafi gert kostnaðar- og verkáætlun um byggingu hússins. Lagt er upp með að deildin eigi húsið, leggi til fjármuni úr sjóðum til að kljúfa um 15 prósent kostnaðar strax en fái lán gegn leigusamningi fyrir afgangnum.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdarstjóra sveitarfélagsins Árborgar, verður erindi deildarinnar skoðað á næstu dögum, en fjárhagsleg skuldbinding sem slík þarf að koma fram á fjárhagsáætlunum. Á móti kemur að sögn Ástu að með slíku húsi myndi sparast bæði kostnaður við að flyja iðkendur til æfinga í Hveragerði, og kyndikostnaður við gervigrasvöllinn. Nýtt hús undir knattspyrnuiðkun myndi líka létta álagi á önnur íþróttahús á vegum sveitarfélagsins.

Heimild: Sunnlenska.is