Home Fréttir Í fréttum Byrja að byggja hof Ásatrúarmanna á næsta ári

Byrja að byggja hof Ásatrúarmanna á næsta ári

588
0
Nýtt hof ásatrúarmanna í Öskjuhlíð MYND/MAGNÚS JENSSON
Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir að framkvæmdir við byggingu hofs fyrir Ásatrúarfélagið hefjist á næsta ári.

Á annað hundrað manns tóku þátt í jólablóti Ásatrúarfélagsins í kvöld í tilefni vetrarsólstaða. Hilmar segir hátíðina standa í nokkra daga.

<>

Hilmar sagði í viðtali við Bergljótu Baldursdóttur í fréttatíma Sjónvarps í kvöld að gert sé ráð fyrir því að hofið verði opnað í mars árið 2018. „Við förum í uppsteypu upp úr áramótum, síðan förum við að sjá burðarvirkið rísa núna í sumar. Þannig að þetta verður komin vegleg bygging hér á sama tíma að ári. Síðan opnum við í mars 2018.“

Tíu ár frá úthlutun lóðar

Ásatrúarfélagið fékk úthlutað lóð í Öskjuhlíð Í Reykjavík árið 2006 undir starfsemi sína. Fram hefur komið í fréttum að hofið verður hvelfing, að hluta niðurgrafin og mun rúma um 250 manns.

Í hofinu munu fara fram blót og ýmsar helgiathafnir, svo sem nafngjafir, siðfesta, hjónavígslur og útfarir. Þá verða haldnir tónleikar og ýmsar sýningar tengdar ásatrú.

Lerki frá Hallormsstað verður notað í burðarvirki hofsins og bæði innri og ytri klæðningu. Aldrei áður hefur svo stórt hús verið byggt úr íslensku timbri en fram hefur komið að fyrsti áfangi með hvelfingu verði tæpir 400 fermetrar. Skógræktin felldi í sumar og þurrkaði máttarvið í hofið. Fjallað var um þetta í fréttum í sumar. Ásatrúarmenn blótuðu sérstaklega af þessu tilefni í Jónsskógi á Hallormsstað til að þakka fyrir timbrið sem skógurinn gaf.

Heimild: Ruv.is