Home Fréttir Í fréttum Borgarlína ódýrari leið en mislæg gatnamót

Borgarlína ódýrari leið en mislæg gatnamót

221
0
Mynd: Bybanen i Bergen
Sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag samninga um innleiðingu Borgarlínu – hraðvagnakerfis um höfuðborgarsvæðið. Borgarstjóri segir þetta tímamót í almenningssamgöngum og að þetta sé ódýrari leið en að byggja fleiri mislæg gatnamót.

 

<>

Undirbúningur fyrir að koma upp léttlesta- eða hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Í dag undirrituðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu svo samkomulag um að undirbúa verkið hjá sér. Þetta er hugmynd um hvaða stöðvar borgarlínan fer en endanlegar tillögur koma frá innlendum og erlendum sérfræðingum snemma á nýju ári.

„Þetta er tímamót vegna þess að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þvert á sín landamæri, þvert á flokka, öll sem eitt, eru með þessu að ákveða að setja stefnuna á hágæða almenningssamgöngur, hraðvagnar eða léttlestir,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hvort það verður fer eftir endanlegu leiðakerfi vagnanna og þar með hversu margir farþegar er áætlað að nýti sér þá. Kostnaðurinn við að koma kerfinu upp er væntanlega tugir milljarða – og ríkið þarf að koma að þeirri fjármögnun. „Sveitarfélögin vilja gjarnan læra af erlendum borgum hvernig þau fjármagna sinn hlut í þessu og svo þarf ríkið að koma inn í fjármögnunina þannig að þetta veltur á því.“

Dagur segir að nauðsynlegt sé að efla almenningssamgöngur til að draga úr umferðartöfum. Þetta sé besta leiðin til þess. „Ef við myndum fara gömlu leiðina, að reyna að byggja mislæg gatnamót, fjölga akreinum og slíka hluti myndi það kosta meira og tafatíminn í umferðinni verður 252% meiri.“

Heimild: Ruv.is