Home Fréttir Í fréttum Veitingaskáli og hótel í smíðum á Arnarstapa

Veitingaskáli og hótel í smíðum á Arnarstapa

214
0
Horft til suðvesturs, í átt til Hellnahrauns. Veitingaskálinn og þjónustumiðstöðin verða stærsta húsinu vinstra megin en hótelið í lágreistu byggingunum hægra megin. GRAFÍK/HÓTEL ARNARSTAPI

Nýtt 36 herbergja hótel og þjónustumiðstöð eru nú í smíðum á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þessi 400 milljóna króna uppbygging er sú mesta í sögu þessa litla þorps, að sögn Birgis Jóhannessonar, smiðs hjá Hótel Arnarstapa, en rætt var við hann í fréttum Stöðvar 2.

<>

Vélarhljóðin óma þessa dagana á Arnarstapa og þar er unnið rösklega því allt á að vera tilbúið innan fimm mánaða, fyrir lok aprílmánaðar. Ferðaþjónustan Snjófell er að bæta aðstöðuna, með stórri þjónustumiðstöð með veitinga- og minjagripasölu en einnig salernum sem sárlega vantar þarna fyrir ferðamenn.

Nýja hótelið verður í nokkrum smáhýsum með alls 36 herbergjum og virðist falla vel að umhverfinu, miðað við grafískar myndir.

Meðan við stöldruðum þarna við sáum við nokkra rútur og slatta af bílaleigubílum þannig að það virðast vera næg verkefni að sinna ferðamönnum.

„Hérna getum við farið að vera með opið allt árið. Ég held að það sé alveg grundvöllur fyrir því,“ segir Birgir.
 
 Það er mögnuð náttúran sem helst dregur ferðamenn á utanvert Snæfellsnes. Jafnvel núna um hávetur er hún sterkt aðdráttarafl. Þarna er það sjálfur jökullinn, en einnig brimið og björgin, fuglalífið og svo gægjast sælir upp úr sjónum. Og vafalaust er mannlífið einnig forvitnilegt.

Birgir segir að þótt komið sé inn í skammdegi streymi ferðamenn enn út á nes. „Á húsbílum líka og sofa úti. Hér var allt á kafi í snjó um daginn og húsbílar fastir hérna um allt,“ segir smiðurinn hjá Hótel Arnarstapa.