Home Fréttir Í fréttum Þarf að byggja um 1.600 íbúðir á hverju ári

Þarf að byggja um 1.600 íbúðir á hverju ári

98
0
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki náð að anna eftirspurn á fasteignamarkaði. Miðað við mannfjöldaspá þyrfti að byggja um 1.600 íbúðir á hverju ári til þess að markaðurinn nái jafnvægi. Ólíklegt er talið að það náist fyrr en árið 2020.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki hækkað eins mikið á einu ári og nú, frá því fyrir hrun, en það hefur hækkað um 13,6% síðustu 12 mánuði. Það þýðir til dæmis að þriggja herbergja íbúð, sem kostaði 26 milljónir í fyrra, kostar 29,5 milljónir nú.

<>

„Það virðist vera meiri eftirspurn eftir fasteignum heldur en framboð og þar af leiðandi er skortur á eignum. Það veldur því að verð hefur hækkað mjög skart og það er barist um góðar eignir,“ segir Kristján Baldursson, fasteignasali. „Það er skortur á nýbyggingum, það vantar lóðir og það vantar að byggja. Það liggur fyrir að borgaryfirvöld í Reykjavík þurfa að spýta í lófana ef þau ætla að ná að halda sjó miðað við Garðabæ og nágrannasveitarfélögin.“

Tekur tíma fyrir markaðinn að ná jafnvægi

Mannfjöldaspá gerir ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um ríflega 3.000 á ári. Samkvæmt þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins frá 2015 þyrfti að byggja 1.500 til 1.700 nýjar íbúðir á hverju ári til þess að mæta eftirspurn. Hrafnkell Á. Proppé, skipulagsfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir ólíklegt að markaðurinn nái jafnvægi fyrr en um 2020. „Miðað við okkar áætlanir þá má búast við að nú skorti 1.500 íbúðir á markaðinn og við munum ná því markmiði, gangi uppbyggingaráform sveitarfélaganna eftir, á næstu þrem – fjórum árum.“

Lítið hafi verið byggt á höfuðborgarsvæðinu árin 2009 til 2014, og íbúafjölgun hafi verið minni á höfuðborgarsvæðinu en spáð hafði verið. Leiða megi líkur að því að staðan á íbúðamarkaði hamli vexti höfuðborgarsvæðisins. „Það var náttúrulega algjört frost hér eftir hrun á byggingamarkaði,“ segir Hrafnkell.

Bitist um byggingaverktaka

Hrafnkell segir aukna eftirspurn eftir gistirými hafa mikil áhrif á nýbyggingar íbúða og á fasteignaverð. „Það má segja að það sé kominn nýr kúnni sem er í mikilli samkeppni við almenna íbúa, sem eru ferðamenn. Hvort sem það er verið að byggja gistiheimili eða hótel eða þá íbúðir sem fara úr því hlutverki og í gistingu og það má velta fyrir sér hvort byggingamarkaðurinn í heild sé í stakk búinn til að takast á við bæði uppbyggingu fyrir sívaxandi fólksfjölda og sívaxandi ferðamenn.“

Heimild: Ruv.is