Home Fréttir Í fréttum Umdeilt risahótel við Mývatn fær leyfi

Umdeilt risahótel við Mývatn fær leyfi

268
0
Hótel við Mývatn Mynd: Basalt arkitektar
Umhverfisstofnun hefur gefið leyfi fyrir byggingu hótels á Flatskalla í landi Grímsstaða. Framkvæmdir við hótelið voru stöðvaðar í byrjun síðasta mánaðar þegar í ljós kom að hvorki hafði verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni hjá Umhverfisstofnun né hafði Skipulagsstofnun fengið tækifæri til að meta hvort framkvæmdin væri háð umhverfismati.

Framkvæmdir við hótelið hófust að nýju í síðustu viku en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í byrjun mánaðarins að þær væru ekki háðar umhverfismati.

<>

Umhverfisstofnun setur framkvæmdinni nokkur skilyrði í umsögn sem birt er á vef hennar. Til að mynda að lögð verði áhersla á að við val á klæðningu á ytri byrði byggingarinnar verði valin efni sem að áferð og lit falli sem best að næsta nágrenni.

Umhverfisstofnun segir hótelið nokkuð umfangsmikið mannvirki sem verði mjög sýnilegt frá Hringveginum. „Vegna bágs ástands lífríkis Mývatns meðal annars vegna ofauðgunar næringarefna verður að gæta þess sérstaklega að við rekstur umrædds hótels aukist ekki sá vandi sem nú er fyrir hendi.“

Töluverð umræða var um lífríkið í Mývatni í sumar. Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, sagði í fjölmiðlum að síðustu tvö sumur væru skýr merki um ofauðgun baktería í vatninu af mannavöldum. Kúluskíturinn væri horfin og botn vatnsins eins og upplásinn eyðisandur. Þá sögðust veiðimenn ekki þekkja vatnið lengur og kvörtuðu undan því að skólpmál væru í ólagi í Mývatnssveit. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði til að mynda að bregðast þyrfti við þessum vanda eins og náttúruhamförum.

Í leyfi Umhverfisstofnunar kemur fram að eigendur hótelsins á Flatskalla hafi lagt fram gögn sem sýni að þeir ætli sér að reisa skólphreinsistöð sem verður mun ítarlegri en aðrar slíkar stöðvar. Skipulagsstofnun setti enda skýr fyrirmæli þessi efnis að hótelið fengi ekki leyfi til reksturs fyrr en sýnt hefði verið fram á virkni hreinsibúnaðar fráveitunnar og að fyrir lægi áætlun um reglubundna vöktun hans.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar, sem birt var á vef hennar í byrjun mánaðarins, komu fram áhyggjur af stærð hótelsins hjá bæði Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Ferðamálastofu. Heilbrigðiseftirlitið sagði að hótelið yrði sýnilegt um allt Mývatnssvæðið og að tveggja hæða bygging hefði verið betri kostur.

Ferðamálastofa taldi í umsögn sinni að framkvæmdir við hótelið ættu að vera háðar umhverfismati, hótelið myndi auka frekar á vandann í lífríki Mývatns og þá væri það stórt miðað við aðra hótelstarfsemi í Mývatnssveit og hótel í dreifbýli almennt. „Vegna staðsetningar, álags á marga ferðamannastaði í Mývatnssveit og á grundvelli þeirra upplýsinga að ekki sé ætlunin að reka hótelið nema hálft árið sé ástæða til að gera betur grein fyrir hvaða áhrif framkvæmdin muni hafa á samfélag.“

Í athugasemdum frá eigendum hótelsins var staðfest að hótelið yrði til að byrja með eingöngu opið frá apríl til nóvember.  Ef rekstrarlegar forsendur gefist standi þó til að reka hótelið á ársgrundvelli.

Heimild: Ruv.is