Landssamband eldri borgara segir hugmyndir um að falla frá byggingu nýs Landspítala við Hringbraut óásættanlegar. Ljóst sé að breytingar myndu seinka byggingu um all mörg ár. Sambandið skorar því á stjórnvöld að standa við fyrri ákvörðun sína um byggingu Landsspítala við Hringbraut.
„Allur sá undirbúningur sem hefur miðast við þá staðsetningu má ekki fara forgörðum. Þær byggingar sem fyrir eru á Hringbraut eru sumar það nýjar að eðlilegt er að þær séu í tengslum og nýtist við nýjan Landspítala. Má þar meðal annars nefna Barnaspítala Hringsins,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.
Í tilkynningunni segir jafnframt að með nýrri byggingu við Hringbraut skapist möguleikar á að nýta núverandi Landsspítala í Fossvogi sem sérstaka miðstöð öldrunarlækninga. Það yrði verðugt hlutverk fyrir þá byggingu þar sem ljóst sé að með fyrirsjáanlegri fjölgun aldraðra sé mjög æskilegt að hafa betri aðstöðu til öldrunarlækninga og rannsókna en nú er.
Landssamband eldri borgara hvetur því til þess að framkvæmdir verði hafnar sem fyrst.
Heimild: Vísir.is