Home Fréttir Í fréttum Miklar framkvæmdir eru fram undan við Hegningarhúsið

Miklar framkvæmdir eru fram undan við Hegningarhúsið

186
0
Mynd: FRÉTTABLAÐIÐ/E.ÓL.

Ráðast þarf í endurbætur á húsnæðinu sem hýsti fangelsið á Skólavörðustíg. Fangelsinu var lokað í sumar, enda verið að taka nýtt fangelsi á Hólmsheiði í notkun. Gera má ráð fyrir að engin starfsemi verði í húsinu fyrr en seinni hluta ársins 2018.

<>

Snævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ríkiseigna, sem hafa umsjón með fasteignum í eigu ríkisins, segir að kostnaður við endurbæturnar muni ekki verða undir 240 milljónum króna.

„Það var gerð mjög gróf kostn­aðaráætlun 2014, sem Fangelsismálastofnun lét gera. Sú áætlun hljóðaði upp á 240 milljónir eða eitthvað svoleiðis. Við teljum að það sé of lág áætlun, enda var það bara viðmið þannig að menn áttuðu sig eitthvað á stærðargráðunni,“ segir Snævar. Hann segist ekki geta ímyndað sér að kostnaðurinn verði undir þeirri upphæð.

Mjög sérhæft
Snævar segir að frá því að Ríkiseignir tóku við húsinu í byrjun sumars hafi verið unnið að undirbúningi varðandi viðhaldsmál.

„Það væntanlega liggur fyrir einhver frumkostnaðaráætlun í desember. Við gerum ráð fyrir að næsta ár fari í undirbúning. Þetta er mjög sérhæft bæði varðandi steinhleðslurnar og þökin og annað,“ segir hann.

Snævar tekur fram að meginframkvæmdaþunginn verði árið 2018. Hann bendir á að húsið sé friðað að utan og að hluta til að innan.

Auglýsa eftir viðskiptahugmyndum
Snævar segir að ekki sé farin af stað nein vinna við að ákveða hvað á að gera viðð húsið að loknum framkvæmdum. Sú vinna sé í höndum fjármálaráðuneytisins.

„Það hefur verið talað á þeim nótum að það verði auglýst eftir einhvers konar viðskiptahugmyndum,“ segir hann. Hugmyndir hafa verið reifaðar um einhvers konar tekjuberandi starfsemi eða safnrekstur.

„Lengra er þetta mál ekki komið og svo sem ekkert sérstakt sem rekur á eftir því annað en að þetta er hús sem hefur ekki verið í neinum notum í fjóra mánuði,“ segir Snævar.

Heimild: Visir.is