Home Fréttir Í fréttum Fyrstu fangarnir hefja afplánun í fangelsinu á Hólmsheiði

Fyrstu fangarnir hefja afplánun í fangelsinu á Hólmsheiði

534
0
Mynd: Visir.is
Fyrstu fangarnir hófu afplánun í dag í fangelsinu á Hólmsheiði. Fimm konur voru fluttar úr fangelsinu á Akureyri til Reykjavíkur. Pláss er fyrir 56 fanga. Meðal nýjunga er að fangar geta fengið fjölskyldur sínar í helgarheimsókn, stranglega verður bannað að reykja innan dyra og nánast enga rimla er að finna.

Hólmsheiðarfangelsið leysir af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið í Kópavogi. Í fangelsinu er pláss fyrir 56 fanga og um þrennskonar fangavist er að ræða. 8 klefar fyrir konur sem hægt er að fjölga 16 og sami fjöldi fyrir gæsluvarðhaldsfanga sem fram að þessu hafa verið vistaðir á Litla Hrauni. Restin er svo fyrir afplánunarfanga. Fangar sem hefja afplánun þarna áður en þeir fara í lengri vist annars staðar.  Fimm konur komu í dag. Guðmundur Gíslason forstöðumaður fangelsisins segir að von sé fleiri föngum á næstunni.

<>

Fangaklefum fjölgar um 30

Það hefur reyndar dregist nokkuð á langinn að taka fangelsið í notkun. Upphaflega stóð til að taka það í notkun í vor  en eins og gerist tekur allt lengri tíma en áætlað er. En nú er komið að því að loka fanga inni og eins og gefur að skilja er fangelsið vel tæknilega útbúið og aðstæður allar nokkuð góðar.  Fangaklefum fjölgar um 30 í ljósi þess að tveimur fangelsum hefur verið lokað. Guðmundur segir að miðað við það sem hefur verið í boði hér á Íslandi séu margar nýjungar í fangelsinu. Hann segir að í fyrsta lagi sé fangelsið hannað og byggt sem fangelsi. Síðasta fangelsið sem var byggt frá grunni sem fangelsi var Hegingarhúsið árið 1872. Þó að nýjum húsum hafi verið bætt við Litla Hraun var það upphaflega ekki hugsað sem fangelsi.

„Hér var byrjað  með ákveðna sýn á það sem þyrfti og hvernig hægt væri að byggja sveigjanlegt umhverfi. Tæknin hjálpar okkur í eftirlitinu. Hérna eru yfir 100 myndavélar til að fylgjast með. Öryggisbúnaður er mjög fullkominn. Þetta er allt hugsað út frá því að það sé auðvelt að vinna hérna. Dæmi um það er að húsið er allt hannað á einni hæð,“segir Guðmundur.

Geta dvalið með fjölskyldum um helgar

Meðal nýjunga í fangelsinu sem hefur reyndar verið boðið upp á í öðrum löndum er sérstök heimsóknaríbúð.

„Hér er 40 fermetra íbúð með barna- og hjónaherbergi og litlum útivistargarði þar sem krakkar geta leikið sér. Hingað getur fjölskylda komið og verið til dæmis eina helgi með fanganum,“ segir Guðmundur.

Rimlalaust fangelsi

Bæði í kvennaálmunni og afplánunarálmunni, sem er einungis fyrir karla, er eldhús þar sem fangar elda sjálfir. Hins vegar er aðeins kuldalegra á gæsluvarðhalddeildinni þar sem fangar eru í einangrun.
Það er hins vegar talsvert hlýlegra á kvennadeildinni þó að ekki sé beinlínis hægt að mæla með dvöl þar.

„Klefarnir eru allir eins. Með salernis- og sturtuaðstöðu, rúmi og skrifborði, glugga og hver klefi er um 12 fermetrar. Á deildinni er bæði eldhús og borðstofa. Þvottaaðstaða þar sem fangar geta þvegið eigin föt og á öllum venjulegum deildum er aðstaða til að elda mat,“ segir Guðmundur.

Athygli vekur að engir rimlar eru fyrir gluggum í fangaklefunum. Gerið er mjög hert öryggisgler og því ekki mögulegt að brjóta það. Þá snúa gluggar þannig að fangar geta ekki séð yfir í aðra klefa eða deild.