Home Fréttir Í fréttum Dýrafjarðargöng færast nær fyrstu sprengingu

Dýrafjarðargöng færast nær fyrstu sprengingu

191
0

Vegagerðin hefur tilkynnt bjóðendum að tilboð í Dýrafjarðargöng verði opnuð í janúarbyrjun. Tilboðin verða hins vegar ekki opnuð nema Alþingi verði þá búið að samþykkja fjárlög.

<>

Vegurinn yfir Hrafnseyrarheiði er helsta ástæðan fyrir því hversvegna menn vilja Dýrafjarðargöng. Hann nær upp í 550 metra hæð yfir sjávarmáli og er jafnan ófær í fjóra til fimm mánuði yfir vetrartímann og helsti farartálminn í vegi þess að hægt sé að aka allt árið milli byggða á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum.

Dýrafjarðargöng eru stærsta verkefnið á þeirri samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti í haust, talin kosta yfir níu milljarða króna, en þau verða 5,6 kílómetra löng. Þar sem þau verða grafin innarlega í Arnarfirði og Dýrafirði fæst 27 kílómetra stytting Vestfjarðavegar milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Í forvali á evrópska efnahagssvæðinu voru sjö verktakasamsteypur metnar hæfar til að bjóða í verkið. Þær samanstanda af fyrirtækjum frá Íslandi, Danmörku,Tékklandi, Sviss, Noregi, Portúgal, Ítalíu og Spáni en Vegagerðin sendi útboðsgögn til þeirra í dag. Tilboðin á að opna þann 10. janúar, eftir tvo mánuði.

Þó er einn fyrirvari, að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Ef ekki verður búið að samþykkja fjárlög, þá verður beðið með að opna tilboðin þar til fjárheimild Alþingis liggur fyrir.

Stefnt er að því að ljúka samningum við lægstbjóðanda í mars eða apríl og að framkvæmdir hefjist um mitt ár. Áætlað er að verkið taki um þrjú ár og að göngin verði tilbúin sumarið 2020.

Heimild: Visir.is