Home Fréttir Í fréttum Suðurnesjalína 2: Áætla að kostnaður við jarðstreng sé meiri en við loftlínu

Suðurnesjalína 2: Áætla að kostnaður við jarðstreng sé meiri en við loftlínu

161
0

Kostnaður við lagningu Suðurnesjalínu 2 sem jarðstrengs er töluvert hærri en sem loftlínu, samkvæmt nýlegri skýrslu Landsnets þar sem bornir eru saman þrír valkostir; jarðstrengur samhliða þeim háspennulínum sem fyrir eru, jarðstrengur að mestu meðfram Reykjanesbraut og loftlína sem liggur meðfram Suðurnesjalínu 1.

<>

Í skýrslunni eru möguleikarnir bornir saman á ýmsan hátt, þar á meðal kostnaður við framkvæmdina sem nær frá Hrauntungum í Hafnarfirði að Rauðamel. Niðurstaðan er sú að stofnkostnaður við jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1 er metinn um 3,5 milljarðar króna, 3,7 milljarðar við jarðstreng meðfram Reykjanesbraut og 1,7 milljarðar við loftlínu. Í skýrslunni segir að allar tölur um kostnað séu nokkurri óvissu undirorpnar en að meiri reynsla sé komin af byggingu loftlína en lagningu jarðstrengja og tölur um kostnað við þær því áreiðanlegri. Varfærið mat gerir ráð fyrir því að loftlínurnar endist í 60 ár. Almennt mæla framleiðendur jarðstrengja með því að gert sé ráð fyrir að þeir endist í 40 ár.

Í áætlunum sínum hefur Landsnet gert ráð fyrir að Suðurnesjalína 2 verði loftlína við hlið þeirrar eldri, Suðurnesjalínu 1. Ekki fékkst samþykki allra landeigenda á Vatnsleysuströnd fyrir lagningu loftlínunnar og hafa áætlanir um framkvæmdina verið umdeildar og öll skref í ferlinu verið kærð, annað hvort til dómsstóla eða úrskurðarnefnda. Nú síðast féll dómur í Hæstarétti þann 13. október þar sem ógild var ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsneti leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2.

Út frá tölfræði um truflanir í rekstri jarðstrengja er líklegt að yfir 40 ára tímabil gætu orðið 3 til 4 bilanir og samtals gæti jarðstrengur verið úr rekstri í um 1.200 klukkustundir eða í um tvo mánuði. Í skýrslunni segir að verulegur kostnaður verði af bilunum af þessari stærðargráðu og því mikilvægt að til staðar sé önnur raflína til að minnka áhrif þeirra. Þá kemur fram að líklegt sé talið að yfir 40 ára tímabil gætu orðið fjórar til fimm bilanir á loftlínu og að hún gæti verið úr rekstri í tæpan sólarhring.

Raforkuspá fyrir Suðurnesin gerir ráð fyrir að álag aukist um 100 prósent frá árinu 2014 til 2050. Í skýrslunni kemur fram að á Suðurnesjum þurfi Landsnet að bregðast við nokkrum áformum stjórnvalda og sjá til þess að flutningskerfi raforku hafi flutningsgetu í samræmi við áætlanir. Meðal þessarra áætlana eru kísilver Thorsil og stækkun á kísilveri United Silicon. Þá kunna stór gagnaver að bætast við.

Heimild: Vf.is