Home Fréttir Í fréttum 900 gallar í nýbyggingu MS

900 gallar í nýbyggingu MS

297
0
Mynd: Ruv.is
Mjög margir gallar eru í nýbyggingu Menntaskólans við Sund, sem rekja má til hönnunar, byggingaframkvæmda og frágangs. Verkfræðistofa benti á 915 tilvik þar sem þyrfti að laga. Már Vilhjálmsson, rektor segir að byggingarreglugerðum sé ekki fylgt og ekki hirt um öryggismál.

Húsnæði Menntaskólans við Sund var löngu orðið of lítið og var ákveðið að byggja 2.800 fermetra nýbyggingu við skólann. Heildarkostnaður var áætlaður einn og hálfur milljarður. Framkvæmdir hófust fyrir um þremur árum og var byggingin tekin í notkun 4. janúar þó svo ekki hafi verið búið að afhenda hana formlega. Gerð var öryggisúttekt á henni þrem dögum síðar.

<>

Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund veit ekki hvað kom út úr henni.  „Ég bara veit það ekki alveg af því ég hef ekki fengið að sjá hana. Ég bara veit það hins vegar að eldvarnarhólfun í skólanum er ekki í lagi.”

Sex eldvarnarhólf eru í skólanum. Sumar hurðir á milli hólfanna eru ekki tengdar og aðrar ónýtar vegna raka.  „Ástandið eins og það er núna er ef kemur upp eldur einhverstaðar í byggingunni þá á bæði eldur og reykur greiða leið um allan skólann.”

Bentu á 915 galla innan húss og utan

Eldvarnir eru ekki það eina sem mættu vera betri. Mjög margir gallar eru á húsinu sem rekja má til hönnunar, byggingarframkvæmda og lélegs frágangs. Ríkiseignir fengu verkfræðistofuna Eflu til að gera úttekt á byggingunni. Hún skilaði skýrslu í júní þar sem hún gerði yfir 200 athugasemdir og benti á 915 galla sem þyrfti að laga strax.

Gallarnir eru bæði innan húss og utan. Til dæmis er efnafræðistofa með dýrum búnaði ónothæf því ekki hefur verið gengið frá gasi og útsogi. Sjá má göt á veggjum þar sem áttu að vera stokkar og lofttúður. Ekki hefur verið gengið frá rafmagnslögnum, rafmagnsvírar standa niður úr loftdósum, kaplar eru ótengdir og rafmagnsdósir hafa lent inn í skápum af því teikningar voru ekki bornar saman, skemmdir eru víða í steypu og múrverki, sprungur í gólfum, lekar eru víða og rakaskemmdir og margt fleira.

Reyndu að vekja athygli á ástandinu

Skólastjórnedur hafa ítrekað reynt að vekja athygli á ástandinu.  „Ég er búinn að koma þessum upplýsingum á framfæri við alla sem koma að byggingunni, Framkvæmdasýslunni sem ber ábyrgð á eftirliti og skipar byggingastjóra, fulltrúa eigenda sem er bæði ríki og borg og við ráðuneyti.”

Rektor skólans og konrektor gengu á fund menntamálaráðherra í vor, 1. apríl til að benda honum á alvarlegt ástand byggingarinnar.

„Staðan er þannig að skólinn treystir sér ekki, ég treysti mér ekki til að undirrita leigusamning við Ríkiseignir vegna þess að það er ekki búið að afhenda bygginguna og Ríkiseignir treysta sér ekki til að taka við byggingunni.”

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerði eldvarnarskoðun á byggingunni 9. september 2015. Í ljós kom að umtalsverðir ágallar væru á brunavörnum skólans og var frestur gefin til 23. september til að gera viðeigandi úrbætur. Það hefur ekki verið gert.

„Hver er þín ábyrgð í þessu máli?  Ja ég held þar sem ég er forstöðumaður skólans þá ber ég ábyrgð á því að öryggi þeirra sem starfa hérna sé ekki stefnt í voða. Ég get það ekki eins og staðan er í dag.”

Ekki hægt að láta bara lukkuna ráða

„„Ég get ekki borið þessa ábyrgð því að ég hef ekkert um öryggismálin að segja, það er ekki hlustað á það.  Sko þetta er ekki spurning um óskalista.  Það er ekki gengið frá málum eins og á að gera samkvæmt byggingareglugerð. Menn fylgja ekki byggingareglugerð og menn hirða ekki um öryggismál það finnst mér alvarlegt þannig að í raun og veru og það er ástæðan fyrir því að við erum kannski að tala saman í dag að það er ekki hægt að búa við þetta óöryggi lengur.”

Nýlega kviknaði í efnafræðistofu vestur í háskóla. „Ef við hefðum verið með þetta í gangi hjá okkur þá hefðum við verið í verulegum vandræðum.”

Már segir að ganga þurfi af fullum krafti í öryggismálin strax.  „Er það þitt stóra áhyggjuefni?  Það er stóra áhyggjuefnið. Það er ekki hægt að búa við það að menn láti bara lukkuna ráða því hvort að… hvernig gangi.”

Heimild: Ruv.is