Home Fréttir Í fréttum Sundhöllin í Asker í Noregi

Sundhöllin í Asker í Noregi

128
0
Mynd: Verkís

Þann 13. október sl. bauð félagið FutureBuilt í Noregi til skoðunarferðar á verkstað þar sem verið er að reisa Sundhöllina Holmen í bænum Asker í Noregi en daginn áður hafði verið haldið reisugilli á staðnum í tilefni þess að þaki sundhallarinnar hafði verið lokað. Sundhöllin er alfarið íslensk hönnun, unnin af Arkís arkitektum og Verkís sem er með alla verkfræðivinnu.

<>

Sundhöllin er á tveimur hæðum byggð með nýjustu tækni. Á aðalhæðinni er 8 brauta 25 m sundlaug með lyftanlegum botni á 3 brautum fyrir breiðan hóp notenda, kennslulaug með lyftanlegum botni, líkamsræktaraðstaða, lítill samkomusalur með félagsaðstöðu, búningsherbergi og veitingasalur. Gert er ráð fyrir að um 400 manns geti verið samtímis í sundlauginni. Áhorfendapallar eru í sundlaugarsalnum.

Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna er um 270 mNOK. Enowa hefur veitt styrk upp á 10 mNOK vegna nýunga til orkusparandi aðgerða í verkefninu en Verkís hefur verið í samstarfi við Tækniháskólann í Þrándheimi vegna þeirra.

Aðilar að félagsskapnum FutureBuild í Noregi eru m.a. sveitarfélögin í Osló, Bærum, Asker og Drammen, Kommunal- og moderniseringsdepartementet (ráðuneyti um nútímavæðingu sveitarfélaga, sem hefur m.a. skipulags- og byggingamál á sinni könnu), Husbanken (Íbúðalánasjóður Noregs), Enova (í eigu ráðuneytis Olíu- og orkumála), Norska arkitektafélagið o.fl.

FutureBuilt félagsskapurinn hefur það að markmiði að koma á fót svokölluðum loftslagshlutlausum byggðasvæðum með arkitektúr af hæstum gæðum með því að koma fram með 50 fyrirmyndarverkefni, sem eiga að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, um 50% innan sviða umferðar, orku- og efnisnotkunar. Sundhöllin í Asker er eitt af þessum verkefnum.

Í FutureBuilt skoðunarferðina komu um 70 manns sem samanstóðu af arkitektum, verkfræðingum, fulltrúum sveitarfélaga og öðrum áhugaaðilum um umhverfisvæna byggingarhætti.

Sveitarfélagið Asker hefur mikinn metnað í umhverfismálum og á Sundhöllin á Holmen að verða ein orkuhagkvæmasta sundhöll í Noregi og verða fyrirmynd annarra sundhallarbygginga er varðar orkunotkun og umhverfisvitund.

Mikilvægustu „loftslags“ verkefnin fyrir sundhöllina eru:
Sundhöllin verði orkuhlutlaust hús (Passivhus)
650 m² af sólarrafhlöðum komið fyrir á þakinu og veggjum sundhallarinnar
Sólfangarar í bílastæði
15 borholur (orkubrunnar, um 200 m að dýpt) til orkuöflunar með varmadælum
Varmaendurvinnsla með varmadælum úr grávatni (frárennsli frá sturtum m.a.), frá sundlaug og loftræsisamstæðum
Upplýsingar um orkunotkun og orkuframleiðslu á skjá í anddyri
Bílastæði í lágmarki og góðar aðstæður fyrir hjól og rafmagnsbíla
Notkun á svokallaðri lágkolefnissteypu

Auk þessara þátta komu vitaskuld margar aðrar umhverfisvænar lausnir við sögu ekki hvað síst er varðar val á byggingarefnum, notkun LED lýsingar, orkusparandi búnaði, endurvinnslu á orku o.fl. Húsið er gríðarlega vel einangrað og nánast gert loftþétt auk þess sem gluggaflötur er í lágmarki. Þegar laugar eru ekki í notkun er lyftanlegu botnunum lyft upp í yfirborð til að lágmarka orkutap. Þessar aðgerðir miða að því að lágmarka orkuþörf og skapa þannig þann möguleika að hægt sé að uppfylla skilyrði um að 50% af orkuþörfinni sé aflað á lóðinni.

Orkunnar, sem sundhöllin mun nota, verður að helmingi aflað á lóð hennar með áðurnefndum varmadælum, sólarrafhlöðum og sólarföngurum. Þá er vert að geta þess að sólfangararnir í bílastæðinu geta einnig nýst á sumrin til að skila orku til baka í borholurnar þ.a. þær kólni ekki of mikið og verði sjálfbærar auk snjóbræðslu á vetrum. Þegar framleiðsla orku hjá sundhöllinni er meiri en þörf er á til reksturs hennar er rafmagnið selt á rafmagnskerfi rafmagnsveitunnar.

Heimild: Verkís