Home Fréttir Í fréttum Mosfellsbær á stór byggingarlönd og mikil uppbygging í gangi

Mosfellsbær á stór byggingarlönd og mikil uppbygging í gangi

304
0

Á næstu árum verður hlutfallslega langmesta íbúðauppbyggingin á höfuðborgarsvæðinu í Mosfellsbæ. Um síðustu áramót voru ríflega 3 þúsund íbúðir í bænum en á fimm til sex árum er gert ráð fyrir að byggðar verði tæplega 1.420 íbúðir. Þetta þýðir að íbúðum mun fjölga um 47% í bænum á þessu tímabili.

<>

Mesta uppbyggingin verður í Helgafellslandi. Þar er gert ráð fyrir 1.050 íbúðum og verða um 600 íbúðir í fjölbýli en restin í sérbýli.

„Það er allt í fullum gangi í Helgafellslandinu,” segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Byggingarfulltrúi hefur þegar gefið út leyfi fyrir um 400 íbúðum og allar fjölbýlishúsalóðirnar eru seldar. Núna er verið að skipuleggja fjórða áfanga uppbyggingarinnar og það er meiri sérbýlisbragur á honum. Af þeim 1.050 íbúðum sem gert er ráð fyrir í hverfinu er líklega búið að byggja um 100 og því til viðbótar er töluverður fjöldi íbúða langt kominn.”

Í Leirvogstungu er gert ráð fyrir 230 íbúðum og verða einungis sérbýli í því hverfi, sem reyndar er að stórum hluta byggt.

„Leirvogstunga er mjög langt komin í uppbyggingu. Ég hugsa að þegar sé búið að byggja um 150 íbúðir þar. Upphaflega var gert ráð fyrir 200 íbúða hverfi í heildina en við vorum að bæta við þrjátíu íbúðum og því verða samtals 230 íbúðir þarna.”

Í miðbæ Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir 140 nýjum íbúðum og verða einungis byggð fjölbýlishús.

„Verkefnið í miðbænum er tiltölulega nýlega farið stað og því ekki búið að klára neitt. Þó gert sé ráð fyrir 140 íbúðum núna geta risið mun fleiri íbúðir á þessu svæði og það mun gerast þegar fram líða stundir.”

Í Mosfellsbæ búa um 9.500 manns. Haraldur segir að bærinn eigi mjög góð byggingarlönd sem hægt sé nýta þegar fram líða stundir. Nefnir hann Blikastaðalandi, Lágafellsland, Sólvallaland og Reykjaland.

„Það er nóg hægt að byggja hér á næstu árum og áratugum ef menn vilja. Fullbyggður gæti Mosfellsbær orðið 35 þúsund manna bær.”

Heimild: Vb.is