Home Fréttir Í fréttum Hótelframkvæmdir við Mývatn stöðvaðar

Hótelframkvæmdir við Mývatn stöðvaðar

198
0
Hótel við Mývatn Mynd: Basalt arkitektar
Skútustaðahreppur hefur stöðvað framkvæmdir við nýtt Fosshótel á Grímstöðum, rétt norðan við Mývatn. Ekki var sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni hjá Umhverfisstofnun en verktakarnir töldu ekki þörf á slíku.

Framkvæmdin er rétt innan marka verndarsvæðis Mývatns og af þeim sökum þarf bæði að sækja um framkvæmdaleyfi hjá Skútustaðahreppi og hjá Umhverfisstofnun.

<>

Töldu sig hafa öll leyfi

Í samtali við fréttastofu segir Benedikt Ingi Tómasson, verkefnastjóri hjá Beka sem starfar fyrir eiganda hótelsins, að þeir hafi ekki talið að sækja þyrfti um leyfi hjá Umhverfisstofnun eftir að hafa farið vel yfir reglugerð um verndun Mývatns. Sömuleiðis þarf Skipulagsstofnun að meta hvort framkvæmdin þarf að fara í umhverfismat en tilkynningu um framkvæmdina var ekki skilað til þeirrar stofnunar. Benedikt á ekki von á að þörf sé á umhverfismati en telur þó ólíklegt að af því verði. Hann segir hins vegar að tapið vegna framkvæmdastöðvunarinnar geti hlaupið á milljónum króna.

Er á ábyrgð framkvæmdaraðila

Birna Guttormsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar af sveitarfélaginu en ekki hafi verið gerð sérstök krafa um það af hálfu Umhverfisstofnunar. Hún segir málið alfarið vera á ábyrgð framkvæmdaraðila, en Umhverfisstofnun telj sig hafa komið skilaboðum áleiðis um skyldur hans.

„Í rauninni var Umhverfisstofnun búin að koma þessum skilaboðum á framfæri, við skipulagsgerðina þegar við vorum með til umsagnar hjá okkur skipulagsáætlun varðandi byggingu hótelsins. Þá var komið þeim skilaboðum á framfæri að það þyrfti að tilkynna framkvæmdina inn til Skipulagsstofnunar og einnig að það þyrfti að sækja leyfi til Umhverfisstofnunar. Við vitum ekki betur en að þeim upplýsingum hafi líka verið komið áfram til fyrirtækisins. Það er náttúrulega á ábyrgð framkvæmdaaðila að sækja um þau leyfi og fara í gegnum það ferli sem þarf að fara í gegnum áður en framkvæmdir hefjast,“ segir Birna.

Heimild: Ruv.is