Svokölluð Borgarlína, nýtt almenningssamgöngukerfi, er á teikniborðinu hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Því er spáð að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um sjötíu þúsund til ársins 2040. Nýja kerfið, sem er ætlað að tengja saman sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins með skilvirkari hætti, er hugsað til að bregðast við því.
Þá er því sömuleiðis ætlað að stuðla að frekari þéttingu byggðar, og þá ekki síst í nágrenni stoppistöðva, og sporna gegn bílaumferð. Kerfið verði búið sérstökum hraðvögnum, eða léttlestum, með skjólsælli og fullkomnari biðstöðvum og örari ferðatíðni. Áætlaður kostnaður við verkefnið hleypur á tugum milljarða króna, en málið var til umræðu í borgastjórn Reykjavíkur í dag.
„Til þess að velja á milli þess hvort við förum í svokallað hraðvagnakerfi eða léttlestakerfi, þá þarf að meta farþegagrunninn,“ segir Dagur í samtali við fréttastofu. „Hversu líklegt það er að þéttingarsvæði í kringum stöðvarnar skili fjölda farþega og þetta er reiknisdæmi sem við erum að fara í og svo þarf auðvitað að ná samkomulagi við ríkið um fjármögnun og áfangaskiptingu. Því að þetta er það stórt verkefni að það verður ekki gert, nema sem einmitt það; stórt samfélagslegt verkefni sem við vinnum í sameiningu.“
Sérstakt innviðagjald að erlendri fyrirmynd
Dagur telur að hraðvagnakerfi á sérmerktum akreinum verði ofan á. Léttlestakerfi komi ekki til álita nema með frekari þéttingu byggðar eða tengingu við alþjóðaflugvöll og þá mikinn fjölda ferðamanna. Hann vill að verktakar taki þátt í stofnkostnaðinum, ásamt ríkinu og sveitarfélögunum, með sérstöku innviðagjaldi.
„Í kringum stöðvarnar má búast við að fasteignaverð hækki mikið, líka verðgildi byggingarréttar og ýmsar borgir hafa farið þá leið að láta þróunaraðila og verktaka sem eiga þannig byggingarrétt borga hluta af þeim ábata sem þeir fá annars beint í eigin vasa, til verkefnanna og samfélagsins,“ segir Dagur. „Ef að sú uppbygging getur staðið undir hluta af stofnkostnaðinum, fáum við öflugt kerfi án þess að það verði risastór baggi á ríki og sveitarfélögum.“
Spurður um hvort það sé til staðar fjármagn til að fjármagna Borgarlínuna, svaraði borgarstjóri: „Aðrar leiðir eru einfaldlega dýrari og verri og ég held að engin vilji framtíð þar sem við sitjum einfaldlega föst í bílunum okkar. Þess vegna þarf að efla almenningssamgöngur.“
Heimild: Ruv.is