Home Fréttir Í fréttum Engar framkvæmdir hjá Silicor á meðan dómsniðurstöðu er beðið

Engar framkvæmdir hjá Silicor á meðan dómsniðurstöðu er beðið

119
0
Silicor á Grundartanga. - MYND/SILICOR MATERIALS.

Silicor mun ekki hefja framkvæmdir fyrr en niðurstaða fæst í dómsmáli sem Kjósarhreppur, bændur á svæðinu og náttúruverndarsamtök höfðuðu til að fá verksmiðjuna í umhverfismat. Fyrirtaka í málinu fer fram 6. október. Þangað til munu Faxaflóahafnir halda að sér höndum en gert var ráð fyrir um hálfum milljarði í framkvæmdir við Grundartanga.

<>

Dómsmálið snýst um að fá úrskurði Skipulagsstofnunar hnekkt en hún úrskurðaði að fyrirhuguð verksmiðja þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Silicor áætlar að framleiða 16 þúsund tonn af sólarkísil í 92 þúsund fermetra verksmiðju. Þegar skrifað var undir samninga í fyrra kom fram að samkvæmt óháðum aðila yrði verksmiðjan umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi. Alls myndu 450 störf skapast og líklega myndi verksmiðjan skila þjóðarbúinu um 50 milljörðum á ári í útflutningstekjur.

„Svona mál taka tíma. Silicor krafðist frávísunar og dómari tók undir þau rök að hluta þannig að málið lifir að hluta. Nú er það gagnaframlagning og svo aðalmeðferð. Þetta er í hefðbundnu ferli,“ segir Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Silicor hér á landi. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að það verði ekki farið af stað í neinar framkvæmdir fyrr en staðfest verði að Silicor muni hefja starfsemi. Fyrirtækið hafi frest fram í desember til að taka endanlega ákvörðun. „Við hreyfum okkur ekki fyrr en allt er klárt og búið er að staðfesta fjármögnun og að samningar taki gildi. Við höfum ekki notað það fjármagn sem er tilbúið. “

Alls er áætlað að um 135 milljónir króna renni til vegagerðar, vatnsveitulagna og fráveitu. Um 175 milljónir eiga að fara í löndunaraðstöðu og um 140 milljónir í hækkun kantbita. Þá er gert ráð fyrir 55 milljónum í lóðagerð vegna samkomulags við Eimskip.

Heimild: Visir.is