Home Fréttir Í fréttum Skóflustunga tekin að nýrri Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Skóflustunga tekin að nýrri Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

202
0
Sædís Heiðarsdóttir aðstoðaði Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra við að taka fyrstu skóflustunguna. Ljósm. Alfons Finnsson.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra tók á föstudaginn fyrstu skóflustunguna að nýrri þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Við athöfnina sagði ráðherra að með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar yrðu innviðir þjóðgarðsins Snæfellsjökuls styrktir, þetta yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og að með henni yrði þjóðgarðurinn betur í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring.

<>

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Hönnun hefur því legið fyrir um nokkurt skeið og er byggingunni ætlað að uppfylla allar þarfir þjóðgarðsmiðstöðvar, bæði hvað varðar upplýsingagjöf, þjónustu og fræðslu til gesta, auk starfsaðstöðu fyrir rekstur þjóðgarðsins sjálfs.

Eftir skóflustunguna var efnt til ráðstefnu í Röst. Yfirskrift hennar var „Þjóðgarður á leið til framtíðar.“ Þar tók ráðherra til máls, sem og Kristinn Jónasson bæjastjóri Snæfellsbæjar, Sturla Böðvarsson bæjastjóri Stykkishólms, Ragnhildur Sigurðardóttir hjá Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, Kristín Huld Sigurðardóttir frá Minjastofnun, Jón Björnsson þjóðgarðsvörður og Sæmundur Kristjánsson sagnaþulur og svæðisleiðsögumaður.

Heimild: Skessuhorn.is