Home Fréttir Í fréttum Hófu ólöglegt niðurrif á byggingu í Kópavogi

Hófu ólöglegt niðurrif á byggingu í Kópavogi

32
0
Grafan hafði rifið niður gluggaskyggni þegar Kolbeinn kom á vettvang. Ljósmynd/Aðsend

Ólöglegt niðurrif á Fannborg 2, 4 og 6, þar sem Kópavogsbíó og bæjarskrifstofur Kópavogs voru meðal annars til húsa, var stöðvað í gær.

Forsaga málsins er sú að árið 2017 auglýsti bæjarfélagið eignina til sölu. Hópur fjárfesta keypti hana og hugðist byggja þar íbúðarhúsnæði.

Nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Kópavogs var svo samþykkt af bæjarstjórn árið 2022 en samkvæmt því er ráðgert að 270 íbúðir rísi í 14 hæða háhýsi á Fannborgarreitnum.

Brýtur í bága við reglugerð

Í skipulagsferlinu hafði þó ekki verið hugað að stæðum fyrir fatlaða meðan á byggingarferlinu stendur en nú þegar eru þjónustuíbúðir fyrir aldraða við hlið framkvæmdasvæðisins og myndu íbúar þar þurfa að ganga jafnvel yfir 200 metra að stæðum meðan á framkvæmdatíma stendur.

Þetta brýtur í bága við Evrópureglugerðir sem að kveða á um að stæði fyrir fatlaða skuli ekki vera lengra en 25 metra frá aðalinngangi húsnæðis.

„Þetta virðist bara eins og eitthvað bara smáatriði og ef þetta væru tvær vikur sem framkvæmdirnar tækju væri hægt að horfa í gegnum fingur sér. En þegar þetta mun taka á fjórða, fimmta ár þar sem fólk þarf að búa við þetta, þá er augljóst að það getur ekki bara frestað sinni fötlun,“ segir Kolbeinn Reginsson, bæjarfulltrúi Vina Kópavogs, en á þessum forsendum kærði hann deiliskipulagið til Húsa- og mannvirkjastofnunar.

Stofnunin gerði verktökunum að útbúa áætlun til að leysa umræddan bílastæðavanda en engin slík áætlun hefur enn litið dagsins ljós.

Kolbeinn segir sennilegt að gera þurfi við skemmdirnar. Ljósmynd/Aðsend

Kemur í ljós að engar heimildir eru til staðar

Því brá Kolbeini í brún þegar hann sá gröfu og flutningabíl fyrir utan húsið í gær.

„Ég fer á staðinn og kynni mig sem bæjarfulltrúa og mér er bara tilkynnt að það eigi að rífa húsið. Ég veit að það er ekki búið að gefa byggingarleyfi og ég segi það,“ segir Kolbeinn en honum var í kjölfarið tilkynnt að húsið yrði samt rifið.

„Ég útbý þá kæru sem að ég sendi á ráðuneytin sem um þetta fjalla, á bæjarstjórann okkar og byggingarfulltrúa.“

Verktakinn lét það þó lítið á sig fá en fyrr í gær varð Kolbeinn var við mikil læti þegar byrjað var að rífa niður þakskyggni á húsinu.

„Þar með var búið að hefja ólöglegt niðurrif,“ segir hann. „Ég hreinlega fer þá á staðinn með kæruna í höndunum, tala við þennan mann sem skildi ekkert í því af hverju ég væri að flagga þarna einhverju blaði. En svo þegar ég var búinn að segja honum að það væri búið að kæra þetta, þá bara stöðvaði hann vélina og hringdi í sinn verkstjóra og spurði: „Bíddu, var ekki búið að klára öll mál hérna?“ Og þá kemur í ljós að þeir eru ekki með neinar niðurrifsheimildir.“

Gröfustjórinn og Kolbeinn á bæjarskrifstofuna

Gröfustjórinn og Kolbeinn héldu þá á bæjarskrifstofuna þar sem þeir hittu fyrir byggingafulltrúa sem kom algjörlega af fjöllum enda hafði ekkert byggingarleyfi verið gefið út

„Hann sér bara að þeir eru búnir að brjóta lögin og stöðvar allar framkvæmdir og nú bara blasir við að þeir eru búnir að búa til tjón á þessari byggingu.“

Ekki liggur fyrir hverjar málalyktir verða en Kolbeinn telur sennilegt að verktakinn muni þurfa að gera við skemmdirnar á húsinu.

Eitt segir hann að minnsta kosti víst og það er að ekki verði hægt að víkja frá Evrópureglugerðinni um 25 metrana þegar kemur að stæðum fyrir fatlaða.

Heimild: Mbl.is