Home Fréttir Í fréttum Í toppformi á fasteignir fyrir 6,7 milljarða

Í toppformi á fasteignir fyrir 6,7 milljarða

21
0
Björn Leifsson og fjölskylda stofnuðu World Class árið 1985. Ljósmynd: Morgunblaðið

Fasteign World Class í Laugum er metin á 1,7 milljarða. Félagið seldi í desember dýrasta einbýlishús landsins.

Í Toppformi ehf., félag Björns Leifssonar, Hafdísar Leifsdóttur og Sigurðar Leifssonar, sem á og rekur fasteignir líkamsræktarkeðjunnar World Class, á fasteignir fyrir 6,7 milljarða króna.

Hjónin Björn og Hafdís eiga 36,6% hlut í félaginu hvort og Sigurður, bróðir Björns, á 26,8% hlut í félaginu samkvæmt ársreikningi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, stærstu eigendur félagsins, hafi persónulega keypt einbýlishús á Arnarnesi af félaginu. Aldrei hefur verið greitt hærra verð fyrir einbýlishús á Íslandi.

Hjónin Björn Kr. Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, eigendur World Class, voru valin markaðsmenn ársins 2006. Hér eru þau í World Class í Laugum.
© Morgunblaðið (mbl)

Hagnaður félagsins nam 456,1 milljón króna samkvæmt ársreikningi. Það er nærri tvöföldun frá fyrra ári, þegar hagnaður nam 235,6 milljónum króna.

Rekstrartekjur félagsins námu 1,28 milljörðum króna og jukust um tæplega 28% milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 893,2 milljónum króna, samanborið við 647,7 milljónir króna árið áður. Fjármagnsgjöld námu 322,7 milljónum króna.

Heildareignir félagsins námu 6,7 milljörðum króna í lok árs og jukust um rúmlega 200 milljónir króna milli ára. Eru eignir félagsins nær eingöngu fasteignir.

Bókfært verð fasteigna er eftirfarandi.

  • Suðurströnd 2–8, Seltjarnarnesi – 341,6 m.kr.
  • Sundlaugavegur 30a, Reykjavík – 1.720,3 m.kr.
  • Tjarnavellir 7, Hafnarfirði – 1.416,4 m.kr.
  • Tryggvagata 15, Selfossi – 544,3 m.kr.
  • Lækjarhlíð 1a, Mosfellsbæ – 552,7 m.kr.
  • Aðrar fasteignir – 2.063,9 m.kr.
  • Áhöld og búnaður – 54,5 m.kr.

Skuldir félagsins námu alls 5,41 milljarði króna í lok árs, þar af langtímaskuldir við Landsbankann að fjárhæð 2,86 milljarðar króna. Þá nam skuld við tengda aðila 1,98 milljörðum króna.

Eigið fé í árslok var 1,29 milljarðar króna, en félagið greiddi 500 milljónir króna út í arð á árinu 2024. Arðgreiðsla vegna ársins 2025 hefur verið ákveðin 250 milljónir króna, en hluthafafundur getur breytt þeirri ákvörðun hvenær sem er.

Stöðugildi hjá félaginu voru 6,2 á árinu og laun og launatengd gjöld námu 159,7 milljónum króna, samanborið við 142,2 milljónir króna árið áður.

Heimild: Vb.is