
Óseldum íbúðum á landinu öllu fjölgaði um 1.233 á árinu 2025. Í upphafi árs 2026 voru 5.116 íbúðir til sölu á landinu öllu, en í janúar 2025 voru þær 3.883. Í ársbyrjun 2024 voru óseldar íbúðir 3.500. Óseldar nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu voru 1.611 í byrjun árs 2026 en voru 1.116 í byrjun árs 2025 og fjölgaði því um 495 íbúðir í sölu á árinu.
Þetta kemur fram í svari Jónasar Atla Gunnarssonar, yfirhagfræðings Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins.
Óseldar íbúðir safnast upp
Í desemberskýrslu HMS 2025 kemur fram að í upphafi desembermánaðar voru 5.386 íbúðir til sölu á landinu öllu, þar af 2.230 nýjar íbúðir. Um 3.400 íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu en um 1.100 íbúðir voru til sölu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og tæplega 900 annars staðar á landsbyggðinni.
Í nóvember fjölgaði íbúðum á sölu um 122 og hlutdeild nýrra íbúða af heildarframboði hækkaði úr 39,7% í 41,4%.
Í byrjun desember var hlutfall nýrra íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu 47,3%, en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var það 43,3% og um 16,2% annars staðar á landsbyggðinni. Hátt hlutfall nýrra íbúða af íbúðum til sölu skýrist af mikilli íbúðauppbyggingu undanfarin misseri, á sama tíma og sala á nýjum íbúðum hefur dregist saman. Afleiðingin er sú að óseldar nýjar íbúðir safnast upp á meðan aðrar íbúðir fara hraðar út af markaðnum.
Dýrari íbúðum fjölgar hratt
Sala nýrra íbúða tók örlítið við sér í október og var 21% kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu kaup á nýjum íbúðum, en fram til þess hafði hlutfallið verið rétt undir 15%. Flestar þessara nýju íbúða voru í Hafnarfirði eða um 36%, 30% voru í Reykjavík og 25% í Garðabæ. Sömu þróun má merkja í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en 32% kaupsamninga þar voru kaup á nýjum íbúðum í október en fram til þess hafði hlutfallið verið um 21%. Þriðja hver ný íbúð sem seldist í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var í Árborg og um fjórðungur þeirra var í Reykjanesbæ. Íbúð telst vera ný ef byggingarár er tveimur árum eða minna frá útgáfuári kaupsamnings.
Um 17% notaðra íbúða eru verðlögð undir 65 milljónum króna, eða 289 talsins. Sé rýnt í framboð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eftir verðbilum eru flestar verðlagðar á bilinu 65 til 85 milljónir króna en álíka margar íbúðir eru til sölu á yfir 105 milljónum króna. Einungis 5,5% allra nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru hins vegar verðlögð undir 65 milljónum króna.
Líkt og í notuðum íbúðum hefur framboð nýrra íbúða sem verðlagðar eru yfir 105 milljónum króna einnig aukist hratt á síðustu mánuðum, eða um 60% á síðustu sex mánuðum.
Flestir vilja búa í eigin íbúð
Í könnun sem HMS lét gera um húsnæðisþörf síðastliðið sumar kemur fram að Íslendingar vilja í auknum mæli búa í eigin húsnæði og fólk býr að jafnaði í stærstu íbúðunum um fimmtugt og fer svo að minnka við sig. Talsverður munur er á því hvaða atriði vega þyngst við val á húsnæði eftir aldurshópum. Í skýrslu HMS kemur fram að meirihluti Íslendinga býr í eigin húsnæði og greina má vilja hjá öllum aldurshópum til að búa í eigin húsnæði, þó að mestrar aukningar sé að vænta meðal yngstu aldurshópanna. Könnunin nær, líkt og fyrri búsetumælingar HMS, að takmörkuðu leyti til aðfluttra íbúa. Húsnæðisaðstæður þeirra voru þó kannaðar sérstaklega, þar sem í ljós kom að flestir aðfluttir búa í leiguhúsnæði en stefna á að komast í auknum mæli í eigið húsnæði.
Ungt fólk, sem hefur að jafnaði lægri tekjur og á minna eigið fé, telur verð húsnæðis skipta mestu máli á meðan önnur atriði sem varða gæði og meiri þægindi eru neðarlega á lista. Eftir því sem fólk eldist og fjárhagsleg staða þess styrkist fer verð að skipta sífellt minna máli. Fólk eldra en 65 ára leggur höfuðáherslu á eiginleika sem snúa að gæðum og þægindum, líkt og svalir, palla, næg bílastæði og góð birtuskilyrði. Allir aldurshópar telja þó mikilvægt að ástand húsnæðisins sé gott.
Nóg til á þéttingarreitum
Í Morgunblaðinu 30. desember sl. kom fram að 141 íbúð seldist á tíu þéttingarreitum í Reykjavík á síðasta ári. Á þessum reitum eru 795 íbúðir og því eru 82% íbúðanna á þeim reitum óseld.
Heimild: Mbl.is











