
Tryggingafélag ætlar að bæta tjón sem varð á bílum á Reyðarfirði þegar efnum var sprautað á þak Fjarðabyggðarhallarinnar í sumar. Efnin fuku um bæinn og settust á 65 bíla.
Tryggingafélag hefur samþykkt að bæta tjón á 65 bílum sem skemmdust á Reyðarfirði í sumar. Efni sem úðað var á þak Fjarðabyggðarhallarinnar barst yfir bíla í allt að 400 metra fjarlægð.
Doppur sem varla sáust en fundust greinilega við snertingu
Þakið á Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði var einangrað með sérstakri kvoðu og fleiri efnum var sprautað á þakið undir og yfir kvoðuna. Bíleigendur í nálægum blokkum voru beðnir að hafa bílana ekki nálægt en brátt urðu bæjarbúar þess varir að ekki var allt með felldu. Agnarsmáar glærar doppur límdust á bíla sem sáust varla en fundust greinlega þegar hendi var strokið yfir lakk eða rúður.
Fyrirtækið sem sá um verkið reyndi að fara að öllu með gát. Aðeins var úðað í logni eða litlum vindi en svo virðist sem vindurinn hafi ekki verið eins fyrirsjánlegur og búist var við. Vindhviður og hvirflar gripu úðann og þeyttu honum niður í þorp, í átt til sjávar og yfir bíla í allt að 400 metra fjarlægð. Einnig upp og yfir bílastæðið við grunnskólann og í allar áttir, virðist vera, nema inn fjörðinn.
Verktakinn er tryggður hjá Sjóvá og Bílamálun á Egilsstöðum skoðaði bílana. Þangað var komið með 65 bíla og Fjarðabyggð, sem á Fjarðabyggðarhöllina, lofaði þeim sem áttu bíla við grunnskólann að hvernig sem færi myndi sveitarfélagið bæta skaðann. Ekki kemur til þess eftir að Sjóva samþykkti öll tjónin fyrir áramót.
Tekur tvo daga að leirbaða, massa og bóna hvern bíl
Um þriðjungur bíleigendanna ætlar ekki að þiggja þrif heldur fá samkomulagsbætur í staðinn. Talsverð vinna er að ná efninu af bílunum. Það þarf að þrífa þá, setja þá í eins konar leirbað, massa svo lakkið og bóna. Samkvæmt upplýsingum frá Bílamálun ganga þrifin vel og er einn maður um tvo daga með hvern bíl. Bíleigendur fá eftir þetta gljáfægðan og stífbónaðan bíl og eru sagðir brosa hringinn þegar þeir sjá kaggana.
Heimild: Ruv.is











