
Tekist hefur verið á um legu Hvalárlínu á Vestfjörðum. Landsnet segir tvo valkosti til athugunar. Báðir fela í sér að línan þveri ósnert víðerni á Vestfjörðum. Umhverfisverndarsinni telur þörf á raunverulegri valkostagreiningu.
Lega Hvalárlínu og Miðdalslínu á Vestfjörðum, sem gætu komið til framkvæmda 2028, er umdeild. Þeir valkostir sem helst eru til skoðunar hjá Landsneti þvera ósnert víðerni á Vestfjörðum.
Framkvæmdin snýr að lagningu tveggja háspennulína á Vestfjörðum. Markmiðið er tvíþætt: Að styrkja flutningskerfið á norðanverðum Vestfjörðum og hins vegar að tengja nýja 55 MW Hvalárvirkjun við meginflutningskerfið.
Samkvæmt Landsneti er kynningu á matsáætlun fyrir Hvalárlínu 1 og Miðdalslínu 1 lokið og er hún í álitsgerð hjá Skipulagsstofnun.
Eins og nafnið gefur til kynna myndi Hvalárlína tengja Hvalárvirkjun við meginflutningskerfi á landinu. Hún væri tengivirki Landsnets í Miðdal í Ísafjarðardjúpi.
Miðdalslína tekur þar við og heldur tengingu áfram til Kollafjarðar og þar með meginflutningskerfið. Með þessu myndar Hvalárvirkjun möguleika á hringtengingu.
Vilja fara í gegnum ósnert víðerni
Samkvæmt matsáætlun eru tveir valkostir um legu línanna helst til skoðunar hjá Landsneti. Þeir eru H1 og H2 á myndinni hér fyrir neðan. Í heild segir Landsnet að fjórir möguleikar séu til skoðunar sem tenging við Hvalárvirkjun. Aðrir valkostir séu ekki fýsilegir þar sem þeir séu of kostnaðarsamir.

Landsnet
Gæti haft áhrif á stærstu víðerni landsins
Í álitum um matsáætlun Landsnets um Hvalárlínu 1 og Miðdalslínu 1 má finna nokkur mismunandi sjónarmið.
Í umsögn Náttúruverndarstofnunar segir nauðsynlegt að umhverfismat línanna taki mið af stefnu svæðisskipulags Vestfjarða þar sem línurnar gætu haft áhrif á einhver stærstu óbyggðu víðerni á landinu.
Meðal annars Hornstrandir, Drangajökulssvæðið, Glámuvíðerni og Ófeigsfjarðarheiði. Þessi svæði hafi mikið gildi og því þurfi að athuga hver áhrif línanna verði á upplifun almennings og ferðamanna af ósnortinni náttúru.
Þá segir þar einnig að íslensk víðerni séu einstök og fágæt auðlind. Því sé ekki hægt að draga úr áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda með þeim rökum að umferð eða nýting sé lítil. Verndargildið ráðist ekki af því hve margir fari um svæðið eða nýti það.
Landsnet tekur undir þetta í svörum sínum og leggur áherslu á að í umhverfismatsskýrslu verði ítarleg umfjöllun um slík óbyggð víðerni.

Landsnet
Í umsögn sinni um mögulega valkosti segir Náttúruverndarstofnun að forsendur um hagkvæmissjónarmið séu ekki fullnægjandi forsenda í umhverfismatsferli. Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana og reglugerð sömu laga kveði á um að útilokun valkosta verði að rökstyðja með tilliti til umhverfisáhrifa, tæknilegs fýsileika og skipulagslegra forsendna og því ekki heimilt að vísa einungis til kostnaðar.
Landsnet telur hins vegar að afmarka verði raunhæfa valkosti með hliðsjón af tæknilegum möguleikum, kostnaði og öðrum grundvallarforsendum, auk þess að leitast sé við að kalla fram ólík sjónarmið og stuðla að virkara samtali við hagaðila. Í tilfelli tengingar Hvalárvirkjunar voru valkostir 7 og 7+M metnir óraunhæfir vegna kostnaðar.
Lítill munur á H1 og H2
Skipulagsstofnun segir í athugasemdum sínum að lítill munur sé á þeim valkostum sem Landsnet er með til skoðunar. Allir þeir sem raunverulega séu álitnir mögulegir komi til með að fara í gegnum óbyggð víðerni. Aðrir valkostir, sem færu að mestu utan óbyggðra svæða hafi verið afskrifaðir af Landsneti vegna hærri kostnaðar.
Stofnunin telur að í umhverfismatsskýrslu Landsnets þurfi að lágmarki að vera umfjöllun um þá kosti sem skoðaðir voru í aðdraganda undirbúnings matsáætlunar og þá einkum kosti 7 og 7+M sem eru rúmlega 15-20 km lengri en þeir valkostir sem lagðir eru fram til mats á milli Miðdals og Hvalár en ljóst er að valkostir 7 og 7+M uppfylla vel kröfur um afhendingaröryggi og flutningsgetu skv. þeirri valkostagreiningu Landsnets sem fylgdi matsáætlun.
50% dýrara að sleppa því að fara í gegnum víðerni
Í svörum frá Landsneti segir að áætlaður heildarkostnaður fyrir báðar línur sé 8,7 milljarðar króna.
Fyrirhugaður kostnaður vegna Hvalárlínu 1 (Hvalá-Miðdalur, valkostir H1/H2) sé um 3,8 milljarðar króna. Í því sé innifalin 26 km loftlína, 14 km jarðstrengur og tvö strengendavirki.
Í Hvalárlínu 1 sé gert ráð fyrir að hluti línuleiðar sé lagður í jörðu. Valkostir 7, 7+M og O feli í sér töluvert lengri vegalengd en aðrir og verði því ekki teknir til frekari umfjöllunar.
Fyrir valkosti 7 og 7+M sé kostnaður um 50% dýrari en aðrir valkostir. Það myndi þýða að ekki væri raunhæfur rekstrargrundvöllur fyrir Hvalárvirkjun.
Við útilokun valkostar 7 hafi hagkvæmnissjónarmið verið ráðandi og hafi það verið gert í samræmi við 9. gr. raforkulaga, þar sem kveðið er á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja upp flutningskerfið á hagkvæman hátt, með tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar.
Fyrir valkost 7+O færist tengivirki of langt frá Miðdal sem takmarki möguleika Landsnets á að styðja við tengingu fleiri virkjana í bið- og nýtingarflokki.
Vestfirðir ítrekað án rafmagns
Nokkuð hefur verið fjallað um ótraust rafmagn á Vestfjörðum í fréttum undanfarið og má þar nefna að síðast fór rafmagn af Tálknafirði í þrettán klukkutíma á gamlársdag. Áður varð rafmagnslaust í fimm tíma þann 11. desember.
Sveitarstjórn Vesturbyggðar fundaði með orkubúinu eftir rafmagnsleysið 11. desember og hyggst gera það aftur þegar niðurstaða er komin í bilanagreiningu eftir gamlársdag.
Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, hefur kallað eftir því að orkuöryggi verði eflt á Vestfjörðum og horfa margir til Hvalárvirkjunar sem mögulegs kosts.
Strandabyggð samþykkir þverun víðerna
Hvalárlína myndi liggja að mestu í gegnum landsvæði sem fellur undir sveitarfélagið Strandabyggð. Fjallað var um málið á sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar þann 11. nóvember. Gerðar voru nokkrar athugasemdir við matsáætlum Landsnets en að mestu var hún samþykkt.
Í umsögn Strandabyggðar um matsáætlun um Hvalárlínu 1 og Miðdalslínu 1 segir að „Strandabyggð horfir til þess að þeir virkjanakostir sem eru í eða fara um land sveitarfélagsins þjóni þeim tilgangi að efla innviði sveitarfélagsins, auka aðgengi að raforku og skapa atvinnutækifæri því tengd. Strandabyggð leggur engu að síður þá skyldu á herðar hlutaðeigandi að ávallt sé farið um víðerni sveitarfélagsins af varúð og virðingu fyrir náttúru og lífríki.“
Gera þurfi breytingar á aðalskipulagi Strandabyggðar 2024 til 2036. Gert sé ráð fyrir að tekið verði mið af niðurstöðum umhverfismats vegna línanna. Tengivirkið í Miðdal kunni einnig að kalla á gerð deiliskipulags, eftir umfangi og aðstæðum.
Tekið er fram að Strandabyggð verði leyfisveitandi vegna framkvæmdaleyfa vegna línuframkvæmda innan marka sveitarfélagsins, nema til þess komi að unnið verði sérstakt raflínuskipulag. Einnig verður Strandabyggð leyfisveitandi vegna byggingarleyfis tengivirkis.
Að öðru leyti gerði sveitarfélagið ekki athugasemdir við matsáætlun Landsnets og var umsögn Strandabyggðar samþykkt.

Strandabyggð / Jón Jónsson
Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar mótmælir
Matthías Sævar Lýðsson, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Strandabyggðar og sveitarstjórnarmaður minnihlutans, vakti hins vegar athygli á því í bókun að lega línunnar eins og hún var kynnt myndi hafa mikil áhrif á náttúru og víðerni innan sveitarfélagsins.
Hann var þó sáttur við vinnubrögð Landsnets sem hann sagði vönduð og lýsti yfir ánægju með að fulltrúar fyrirtækisins hefðu fundað með sveitarfélaginu.
„Það er varla í verkahring Sveitarstjórnar Strandabyggðar né Landsnets að gæta fjárhagslegra hagsmuna einkafyrirtækis ef það felur í sér stórfellda skerðingu á samfelldum óbyggðum víðernum,“ segir í bókun og telur Matthías slíkt stríða gegn náttúruverndarlögum.

A-listi Strandabyggðar
Annað sem Matthías bendir á er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2024 sé minnst á vernd ósnortinna víðerna. Það má finna í sjöundu aðgerð ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingunni þar sem sagt er: „Þá verður stutt við líffræðilega fjölbreytni og ráðist í aðgerðir til að vernda hafsvæði og ósnortin víðerni.“
Hann telur að ef Hvalárlína liggur í gegnum ósnert víðerni landsins þurfi ríkisstjórnin að endurskoða markmið sitt eða gera meira til þess að vernda víðernin.
Þá bendir Matthías einnig á að mögulegt sé að lengri leiðin myndi mögulega verða til þess að fækka málaferlum þar sem næsta víst sé að náttúruverndarsamtök muni reyna að koma í veg fyrir að línan þveri víðerni landsins.
Fylgjast grannt með framkvæmdum
Snæbjörn Guðmundsson, formaður náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða, segir að ekkert hafi enn verið ákveðið um hvort farið verði í málaferli vegna Hvalárlínu en hann segir að samtökin muni fylgjast náið með þróun mála.
Hann bendir á að undirbúningsframkvæmdaleyfi hafi verið veitt til Vesturverks í haust og það hafi um leið verið kært af fjórum náttúruverndarsamtökum.

RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson
Hann segir mikilvægt fyrir alla að hugsa út fyrir kassann í stórum framkvæmdum sem þessum þar sem víðerni og ósnortin náttúra sé undir.
„Við hvetjum alla hvort sem það eru sveitarstjórnarfólk, einstaklingar eða stofnanir til að fara fram á að það sé alvöru valkostagreining,“ segir Snæbjörn. Hann endurómar þannig gagnrýni Náttúruverndarstofnunar um að þeir valkostir sem kynntir hafa verið af Landsneti séu mjög keimlíkir og að í raun sé ekki um tvo mismunandi valkosti að ræða. Þeir valkostir taki helst mið af kostnaði í peningum og litlu öðru.
„Það sem vantar alltaf inn í greiningu er fórnarkostnaður náttúrunnar eða það sem við köllum umhverfiskostnað,“ segir Snæbjörn.
Heimild: Ruv.is











