Yfirvöld í Crans-Montana í Sviss viðurkenndu á blaðamannafundi í dag að brunavarnaeftirlit hefði ekki verið framkvæmt undanfarin fimm ár á skemmtistaðnum Le Constellation Bar í skíðabænum Crans-Montana þar sem eldur braust út á nýársnótt með þeim afleiðingum að 40 manns biðu bana og tugir slösuðust.
„Reglubundið eftirlit var ekki framkvæmt á árunum 2020 til 2025. Við hörmum þetta sárlega,“ sagði Nicolas Feraud, bæjarstjóri Crans-Montana, á blaðamannafundinum.
Yfirvöld telja að eldurinn hafi kviknað þegar fólk sem fagnaði nýju ári lyfti kampavínsflöskum með stjörnuljósum festum á þær, sem kveikti í hljóðeinangrandi froðu í lofti kjallara skemmtistaðarins.
Í yfirlýsingu sem gefin var út á blaðamannafundinum sagði sveitarfélagið Crans-Montana að farið hefði verið yfir öll skjöl í málinu sem lögð voru fyrir saksóknara í kantónunni Wallis eftir brunann.
„Þrátt fyrir að meira en 1.400 brunavarnaeftirlit hafi verið framkvæmd í sveitarfélaginu einu saman árið 2025, harmar bæjarstjórnin djúpt að hafa komist að því að þessi starfsstöð hafði ekki gengist undir reglubundið eftirlit á árunum 2020 til 2025,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Bæjarráðið sagði að það myndi fela sérhæfðri, óháðri stofnun að framkvæma eftirlit með öllum opinberum samkomustöðum og banna notkun flugelda og annarra sprengiefna innandyra.
Meðaldur þeirra sem létust 19 ár
„Sveitarfélagið Crans-Montana er áfram staðráðið í að styðja fórnarlömb þessa harmleiks og fjölskyldur þeirra og ástvini, sem eru stöðugt í huga þess,“ segir í yfirlýsingunni.
Lögreglan í Wallis sagði í gær að búið væri að bera kennsl á alla 116 sem slösuðust í eldsvoðanum, þar af væru 83 enn á sjúkrahúsi. Meðalaldur þeirra sem létust var 19 ár.
Heimild: Mbl.is












