Home Fréttir Í fréttum Undirbúningur niðurrifs altjónaðra eigna í Grindavík gengur vel

Undirbúningur niðurrifs altjónaðra eigna í Grindavík gengur vel

79
0
Mynd: Grindavik.is

Undirbúningi að niðurrifi altjónaðra fasteigna í Grindavík miðar vel áfram. Fyrsta örútboð vegna niðurrifs verður auglýst í janúar og er gert ráð fyrir að niðurrif á þremur fasteginum hefjist á næstu vikum, þ.e. Mánagerði 2, Mánagötu 19 og Mánagötu 21. Verulegur hluti verkefnisins verður unninn á árinu 2026 en líklegt er að það standi fram eftir árinu 2027.

Niðurrif er forsenda sprunguviðgerða

Alls eru 35-40 altjónaðar fasteignir í Grindavík. Í mörgum tilvikum er niðurrif þeirra forsenda þess að hægt sé að ráðast í sprunguviðgerðir innanbæjar í Grindavík eða aðrar nauðsynlegar aðgerðir á afgirtum svæðum í þéttbýli. Slíkar aðgerðir eru mikilvægur hluti af endurreisn bæjarins og mun afgirtum svæðum því fækka í kjölfar niðurrifs og sprunguviðgerða.

Grindavíkurbær annast framkvæmdina

Grindavíkurbær er verkkaupi framkvæmdarinnar og ber ábyrgð á framkvæmd, samskiptum og greiðslum við verktaka, auk þess að sjá til þess að öllum lögboðnum úttektum sé lokið við verklok.

Ákvörðun um niðurrif einstakra húsa liggur hjá húseigendum. Þeim stendur til boða að gera samning við Grindavíkurbæ um að bærinn annist niðurrif í umboði húseiganda, gegn greiðslu umsýslukostnaðar.

Með slíkum samningi veitir húseigandi bænum umboð til að annast allan helsta undirbúning og framkvæmd niðurrifs, þar á meðal ráðningu byggingarstjóra, umsóknir um leyfi, aftengingu veitna og skil lóðar að niðurrifi loknu.

Samkomulag við Þórkötlu og upplýsingagjöf til annarra eigenda

Fasteignafélagið Þórkatla er eigandi meirihluta altjónseigna í Grindavík og hefur þegar verið gert samkomulag milli Grindavíkurbæjar og félagsins um þátttöku í verkefninu. Aðrir eigendur altjónaðra eigna hafa verið upplýstir um ferlið og stendur þeim til boða að fá frekari upplýsingar á fundi með fulltrúum Grindavíkurbæjar.

Rammasamningur tryggir skilvirkt ferli

Fyrir liggur rammasamningur milli Grindavíkurbæjar og níu verktakafyrirtækja. Fyrirtækin sem um ræðir eru:

  • Berg verktakar
  • Berserkir
  • Ellert Skúlason
  • Guðlaugsson
  • H2Orka
  • Jón og Margeir
  • Sveins verk
  • Urð og grjót
  • Víkurfrakt

Á grundvelli rammasamnings hyggst bærinn auglýsa örútboð um framkvæmd niðurrifs á altjónuðum fasteignum. Markmið rammasamningsins er að tryggja skilvirkt ferli og hagkvæm tilboð í samræmi við lög um opinber innkaup.

Uppbygging í kjölfar niðurrifs

Að niðurrifi loknu tekur sprunguviðgerðarteymi við og stýrir viðgerðum á viðkomandi svæðum. Undirbúningur að nýju skipulagi er hafinn að hálfu Grindavíkurbæjar og hafa fyrstu hugmyndir verið kynntar íbúum, m.a. við íþróttamannvirki.

Nánari upplýsingar um framkvæmd, tímasetningar og möguleg áhrif á nærliggjandi svæði verða kynntar sérstaklega þegar nær dregur framkvæmdum.

Heimild: Grindavik.is