
Þorsteinn Már segir að tafir hafi orðið á uppbyggingu landeldisins á Reykjanesi vegna þess hversu þungt kerfið sé orðið.
Samherji hefur komið að landeldi á laxi og bleikju í yfir 20 ár. Fyrirtækið rekur sex landeldisstöðvar fyrir bleikju og lax á öllum stigum víða um land, allt frá hrognaeldi til vinnslu og pökkunar á fullunninni vöru. Það vita það örugglega ekki allir en Samherji er sem dæmi stærsti framleiðandi á eldisbleikju í heiminum.
Samherji er með risavaxin áform um landeldi á laxi á Reykjanesi, þar sem fyrirtækið hyggst framleiða 36 þúsund tonn á ári.
„Fyrr á þessu ári lukum við 34 milljarða króna fjármögnun vegna fyrsta áfanga Eldisgarðsins á Reykjanesi. Bæði innlendir og erlendir bankar sýndu okkur mikið traust með þátttöku í því verkefni.
Á ég von á því að þetta verkefni, ásamt öðrum verkefnum á sviði laxeldis, muni skila miklum útflutningsverðmætum fyrir þjóðarbúið þegar fram í sækir. Fjárfestingin í Eldisgarðinum byggir á nýrri tækni sem hefur verið þróuð í eldisstöð Samherja í Öxarfirði.“
Þorsteinn Már segir að tafir hafi orðið á uppbyggingunni vegna þess hversu þungt kerfið sé orðið.
„Það eru gerðar gríðarlegar kröfur og ég gagnrýni það ekkert en það er ekki í lagi hvað það tekur langan tíma að fá leyfi. Þetta á ekki bara við um fiskeldið heldur er þetta svona víða í atvinnulífinu. Við erum komin með öll tilskilin leyfi núna en þetta hefur tekið fjögur ár. Það er eitthvað að þegar þetta tekur þennan tíma.”
„Jarðvegsframkvæmdir hófust í fyrra, árið 2024, við vorum þá með leyfi til að grafa eins og maður segir. Það mun síðan margt gerast á næsta ári og við stefnum að því að byrja slátrun árið 2028. Við stefnum að því að framleiða 36 þúsund tonn en við munum gera þetta í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga munum við framleiða um 12 þúsund tonn.“
Heimild: Vb.is











