
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að setja upp padelvöll í eldri íþróttasal íþróttamiðstöðvarinnar á Reyðarfirði.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðsins frá 18. desember síðastliðnum.
Minnisblað um uppbyggingu padelvallar var sent fjölskyldunefnd Reyðarfjarðar í upphafi mánaðarins af Laufeyju Þórðardóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Þar er farið yfir núverandi nýtingu gamla íþróttasalarins og forsendur fyrir mögulegri uppsetningu padelvallar.
Setja þarf upp nýtt loftræstikerfi
Í minnisblaðinu er meðal annars bent á að gamli íþróttasalurinn uppfylli hvorki núverandi kröfur heilbrigðiseftirlits né þarfir þeirra grunnskóla sem nýta salinn að fullu. Ef rýmið ætti áfram að nýtast til íþróttakennslu myndi það kalla á umfangsmikið viðhald.
Jafnframt kemur fram að verði padelvöllur settur upp þurfi að tryggja að allri þeirri starfsemi skólanna sem fer nú fram í gamla salnum verði fundið sambærilegt eða betra rými annars staðar.
Þá er einnig nefnt að uppsetning og notkun padelvallar krefjist þess að sett verði upp nýtt loftræstikerfi í húsinu og mögulega að undirstöður gólfsins verði styrktar.
Mun kosta 750.000 krónur
Í vinnuskjali Jóns Grétars Margeirssonar, fasteigna- og framkvæmdafulltrúa Fjarðabyggðar, sem dagsett er 16. desember, kemur þó fram að ekki ætti að þurfa að ráðast í framkvæmdir á gólfi hússins til að koma þar fyrir padelvelli.
Þar er jafnframt tekið fram að kostnaður við endurbætur á loftræstikerfi sé áætlaður 750.000 krónur.
Bæjarstjóranum falið að ganga frá samningi
Í fundargerð bæjarráðsins frá 18. desember segir að fjölskyldunefnd hafi tekið vel í hugmyndina, en jafnframt bent á þau atriði sem huga þurfi að verði padelvöllur settur upp. Málinu var í kjölfarið vísað til bæjarráðs, sem samþykkti að heimila uppsetningu vallarins í eldri íþróttasalnum.
Bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Jónu Árnýju Þórðardóttur, hefur verið falið að ganga frá samningi vegna afnota og reksturs vallarins í húsinu.
Fundargerðina má lesa á vef sveitarfélagsins, þar sem einnig má finna viðhengi, þar á meðal minnisblaðið, vinnuskjalið og teikningar af fyrirhuguðum padelvelli.
Heimild: Mbl.is











