Home Fréttir Í fréttum 50 kílómetrar af hjólastígum 2026

50 kílómetrar af hjólastígum 2026

21
0
Hár má sjá nýja brú sem búið er að opna yfir Dimmu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fjöldi hjólandi og gangandi vegfarenda í Reykjavík hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin tíu ár. Staða hjólreiðaáætlunar borgarinnar var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í vikunni.

Stefnt er á að hefja fjölda framkvæmda á næsta ári. Má þar nefna stíga í Breiðholti, Vínlandsleið í Grafarholti og í Elliðaárdal.

Þá verður vinnu við gerð stíga í Skógarhlíð og við Arnarnesveg einnig haldið áfram í samstarfi við Betri samgöngur.

Bæta við 4 kílómetrum

Áætlað er að nýir hjólastígar í borginni verði um 4 kílómetrar á árinu 2026 sem þýðir að í lok árs verði þar rúmlega 50 km af hjólastígum.

Kílómetralangur göngu- og hjólastígur mun rísa frá Arnarnesvegi að Norðurfelli. Stígurinn tengist meðal annars stígum við Arnarnesveg og undirgöngum undir Breiðholtsbraut.

Hér má sjá umræddan stíg við Suðurfell. Hann liggur frá Arnarnesvegi að Norðurfelli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Framkvæmdir að Vínlandsleið

Meðfram Vínlandsleið verður svo gerður 800 metra langur stígur, frá Krókstorgi að Húsasmiðjunni. Stígurinn verður lagður í kjölfar framkvæmda Veitna á svæðinu.

Gert er ráð fyrir því í framtíðinni að framlengja gangstétt sem nú er við Vínlandsleið að Krókstorgi.

Í Elliðaárdalnum verður gerður, þar sem áður var hitaveitustokkur, stígur með þremur nýjum brúm. Framkvæmdin er í samstarfi við Veitur og horft verður til þess að miðla og varðveita verksummerki um starfsemi Veitna á svæðinu.

Þá er unnið að lokafrágangi brúar yfir Dimmu og kemur hún í stað veitustokks sem löngum hefur verið nýttur sem göngubrú af gangandi og hjólandi vegfarendum.

Stígurinn verður 800 metra langur og mun liggja meðfram Vínlandsleið. Frá Krosstorgi og langleiðina að Húsasmiðjunni. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ný brú í Grænugróf

Svo er búið að opna brú fyrir gangandi og hjólandi í Grænugróf í Elliðárdal. Vinna við göngu- og hjólastíga

Unnið verður áfram að uppbyggingu göngu- og hjólastíga meðfram Arnarnesvegi, frá Elliðaárdal að Rjúpnavegi í Kópavogi, yfir Vatnsenda.

Framkvæmdir við Dimmu, Grænugróf og Arnarnesveg falla undir samgöngusáttmálann og eru unnar í samstarfi við Betri samgöngur og Vegagerðina.

Árið 2026 klárast svo stígagerð í Skógarhlíð. Um er að ræða viðbót við núverandi hjóla- og göngustíg austan megin götunnar sem mun eftir verklok tengja Litluhlíð við stíginn við Miklubraut.

Hér má sjá nýja brú sem reisa á yfir Dimmu í Elliðárdal. Hún kemur í stað hitaveitustokks sem löngum hefur erið nýttur sem göngubrú. Tölvumynd/Reykjavíkurborg

Hjólaskýli á Hlemmi

Til viðbótar við uppbyggingu stíga verður áfram unnið að fjölgun hjólastæða og uppsetningu hjólaskýla.

Á Hlemmi er til að mynda áætlað að reisa hjólaskýli í tengslum við Borgarlínustöð.

Innan Reykjavíkur eru nú tæplega 50 kílómetrar af sérstökum hjólastígum auk fjölda annarra góðra hjólaleiða víðs vegar um borgina.

Hér má sjá nýja brú í Grænugróf. Tölvuteikning/Reykjavíkurborg

Heimild: Mbl.is