Nú rétt í þessu var síðasta haftið í Höfðagöngum á Húsavík sprengt eða um klukkan 15. Það var Erna Björnsdóttir forseti sveitarstjórnar Norðurþings sem hlaut heiðurinn af því að sprengja síðasta haftið.
Fyrsta sprengingin við framkvæmdirnar var 10. mars s.l. en göngin eru um 850 metrar alls í bergi. Það er verktakafyrirtækið LNS Saga sem sér um framkvæmdirnar en göngin tengja saman iðnaðarsvæðið á Bakka þar sem PCC Bakki Silicon reisir kísilmálmverksmiðju og hafnarsvæðið á Húsavík.
Talsverður fjöldi gesta var saman kominn til að fylgjast með gegnumslættinum í þokunni á Húsavík.