Home Fréttir Í fréttum Mygluskemmdir kosta Íslandsbanka 1,2 milljarða

Mygluskemmdir kosta Íslandsbanka 1,2 milljarða

197
0
Mynd: Kjarninn.is

Íslandsbanki lækkaði virði á húsnæði sínu, sem hýsir höfuðstöðvarnar að Kirkjusandi, um 1,2 milljarða vegna skemmda á húsinu. Þetta kemur fram í árshlutareikningi bankans. Eins og fram hefur komið er húsnæðið mikið skemmt af völdum myglu. Birna Einarsdóttir bankastjóri segir þó ekki hafa verið gefið upp hvert bókfært virði höfuðstöðvanna er eða hvað það verður eftir niðurfærsluna.

<>

„Við tókum þessa lækkun á það núna af því að við vitum ekkert hvað verður um húsið,“ segir Birna og bætir við að það myndi kosta stórar fjárhæðir að gera við húsið. Þá sé möguleiki að húsið verði einfaldlega rifið. Þótt bankinn eigi lóðina sem húsnæðið stendur á leggur Birna mikla áherslu á það að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið og húsið yrði ekki rifið án samráðs við borgaryfirvöld.

Eins og fram hefur komið mun Íslandsbanki opna nýjar höfuðstöðvar í Norðurturninum í Kópavogi. Nú hefur verið ákveðið að fyrstu starfsmenn flytji um mánaðamótin október/nóvember.

Eins og Markaðurinn hefur áður greint frá verða breytingar gerðar á vinnuumhverfi höfuðstöðva Íslandsbanka þegar þær flytjast. Þar verður tekið upp svokallað verkefnamiðað vinnuumhverfi í stað hefðbundins opins vinnuumhverfis. Hver starfsmaður mun ekki eiga fasta vinnuaðstöðu en velur sér þess í stað vinnuaðstöðu sem hentar þeim verkefnum sem unnin eru hverju sinni. Þetta er gert til að nýta betur rými, en einungis 55 prósent starfsmanna eru við sæti sín að meðaltali.

Heimild: Visir.is