
Innviðaráðherra segir stefnt að því að framkvæmdir við næstu jarðgöng á Íslandi hefjist árið 2027. Ráðherranum voru í vikunni afhentar yfir tvö þúsund undirskriftir þar sem skorað er á stjórnvöld að taka svokölluð Fjarðagöng á Mið-Austurlandi fram yfir Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar.
Í fréttum Sýnar fórum við í innviðaráðuneytið þar sem ráðherrann Eyjólfur Ármannsson tók fram landabréfabókina þegar Mjófirðingurinn Erlendur Magnús Jóhannsson mætti á fund hans í morgun til að mæla fyrir því að tvenn göng um Mjóafjörð, svokölluð Fjarðagöng, ættu að vera næst í röðinni.
Erlendur benti ráðherranum á að með Fjarðagöngum yrði jafnlangt fyrir Seyðfirðinga að keyra í álverið í Reyðarfirði eins og fyrir Norðfirðinga.

Gtafík/Sara Rut Fannarsdóttir
„Já, ég frétti að það væri jafnlangt – á stærsta vinnustaðinn,“ skaut Eyjólfur að.
Erlendur afhenti svo undirskriftalistana sem 2.133 hafa ritað nafn sitt undir. Þar er skorað á samgönguyfirvöld að setja Fjarðagöng í forgang á samgönguáætlun. Fjarðagöng eru tvenn göng, annarsvegar 5,5 kílómetra löng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og hins vegar 6,8 kílómetra löng milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar.
Ráðherrann spurði hvort undirskriftirnar væru allsstaðar að af landinu og fékk það svar að þær væru langmest að austan.

Nýleg greinaskrif tveggja fyrrverandi bæjarstjóra Seyðisfjarðar lýsa áhyggjum Seyðfirðinga um að þrettán kílómetra löng Fjarðarheiðargöng fari aftar í röðina eftir að ráðherrann kvaðst óbundinn af fyrri forgangsröðun.
„Hvorki ég né Alþingi Íslendinga erum skuldbundin af fyrri samgönguáætlun. Þetta er endurskoðun,“ segir Eyjólfur Ármannsson.
Ráðherrann vildi þó í dag ekki gefa upp hvorn kostinn hann velji.

Grafík/Sara Rut Fannarsdóttir
„Við erum bara að vinna þetta út frá okkar forsendum. Hvað er þjóðhagslega hagkvæmt og gott fyrir íslenskt samfélag og samfélagið fyrir austan.“
En hversvegna ættu Fjarðagöng að koma á undan, að mati undirskriftasafnarans?
„Þau eru í senn ódýrari, fljótlegri í framkvæmd, viljum við meina, og hafa meiri samfélagslegan ávinning fyrir allt Mið-Austurland,“ svarar Erlendur Magnús, forsvarsmaður undirskriftasöfnunarinnar.
„Síðan má skoða hvaða leið er heppilegust til að tengja firðina við Héraðið. Hugsanlega gætu það orðið Fjarðarheiðargöng seinna. Þetta bara snýst um forgangsröðun; að byrja á réttu verkefni,“ segir Erlendur.

Bjarni Einarsson
En það er ekki víst að Austfirðir fái næstu göng. Ráðherra segir að fjármagn verði aukið til að undirbúa fleiri jarðgöng.
„Við ætlum að fara í rannsóknir á fleiri stöðum en hefur verið gert. Ekki bara að séu ein sem eru á hillunni.
Við skoðum bara allt landið og tökum ákvörðun út frá því hvað við teljum hagkvæmast fyrir íslenskt samfélag að taka fyrst,“ segir ráðherra samgöngumála.

Jóhann K. Jóhannsson
„Framtíðardraumur minn er að geta verið með tvenn jarðgöng í gangi á hverjum tíma. Það getum við ekki. Þannig að við byrjum með ein. Svo tökum við næstu. Og vonandi þegar við förum í þriðju, þá getum við verið kannski með tvenn jarðgöng á hverjum tíma.
En þetta snýst allt um fjármagn. Fjármálarammi liggur fyrir í fjármálaáætlun fyrir 2026 til 2030.“

Bjarni Einarsson
En hvenær mun ákvörðun um næstu jarðgöng liggja fyrir?
„Ég mun mæla fyrir tillögu núna á næstu vikum til samgönguáætlunar. Þá mun það koma fram hvernig við lítum á þessa áætlun um jarðgöng.“
En hvenær á svo að byrja að bora næstu göng?
„2027. Við stefnum ótrauð á 2027. Vonandi kannski eitthvað næsta haust. Ég veit það ekki.
En 2027. Við stefnum á það. Vonandi að það takist. En ég lofa engu en það er skýrt markmið,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra.
Heimild: Visir.is











