Home Fréttir Í fréttum Loka fyrirtækjunum og sleppa að borga

Loka fyrirtækjunum og sleppa að borga

47
0
Nýja kerfið á að verja kauppendur fyrir byggingargöllum. mbl.is/RAX

Nýtt fyrirkomulag sem skyldar byggingarverktaka til að tryggja sig gegn byggingargöllum áður en framkvæmdir hefjast kemur til með að sporna gegn því að kaupendur þurfi sjálfir að bera kostnað af ófyrirséðum göllum á húsnæði.

Þetta segir Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur og teymisstjóri hjá HMS, í samtali við mbl.is.

Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í fyrsta húsnæðispakka sínum í vikunni er sérstök byggingargallatrygging að danskri fyrirmynd sem verður skylda fyrir alla byggingaverktaka til að hefja framkvæmdir.

Þá stendur til að leggja niður starf byggingarstjóra og að byggingareftirlit færist frá byggingarfulltrúum sveitarfélaga til óháðra skoðunarstofa.

Samræmist tillögum stofnunarinnar

Þessar tillögur samræmast vel tillögum sem Húnæðis- og mannvirkjastofnun lagði til fyrr á þessu ári í svokölluðum Vegvísi HMS að breyttu byggingareftirliti en Jónas Atli segir stofnunina telja að þær komi til með að gera byggingareftirlit skilvirkara.

Spurður í hverju hin danska byggingagallatrygging felist eiginlega segir Jónas að með því að skylda verktakana til að kaupa trygginguna, sem gildi til 10 ára, sé hægt að ganga út frá því að kaupendur þurfi ekki að bera kostnaðinn af göllum sem eru á ábyrgð byggingarverktakans.

„Þessi trygging gildir í 10 ár svo hugsunin er að þegar byggingargallar koma í ljós seinna þá er komið í veg fyrir það að verktakar loki bara fyrirtækinu sínu, eins og hefur stundum gerst, og þá er ekki hægt að sækja neinn pening úr því því það er gjaldþrota. En þar sem þessi trygging varir lengur væri enn hægt að borga fyrir hugsanlega galla.“

Þá segir hann að sú staðreynd að ekki verði hægt að hefja framkvæmdir án þess að vera með trygginguna geri það að verkum að erfiðara verði fyrir óhæfa aðila að leggjast í framkvæmdir þar sem þeir þurfa samþykki tryggingarfélaga fyrst.

Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur og teymisstjóri hjá HMS. Ljósmynd/Aðsend

Tryggja gæði og viðhalda hraða

Í nýjum húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar er bæði lagt upp úr einföldun regluverks og hraðari uppbyggingu húsnæðis en síðustu daga hefur borið á einhverjum áhyggjum yfir því að þetta kunni að bitna á gæðum nýbygginga.

Jónas telur að það verði ekki raunin. „Við teljum að þetta nýja fyrirkomulag sé bæði skilvirkara og að það muni koma í veg fyrir byggingargalla með betri hætti heldur en hefur verið,“ segir Jónas.

Með þessum hætti sé verið að tryggja meiri gæði í íbúðunum sem verða byggðar án þess að koma niður á þeim byggingarhraða sem þarf til þess að verið sé að byggja í samræmi við þörf.

Hefur ekki virkað sem skyldi

Spurður af hverju HMS hafi lagt til að leggja niður byggingarstjórastarfið segir Jónas að það hafi ekki virkað sem skyldi.

„Eitt meginvandamálið er að við höfum í núverandi kerfi ekki nógu góða yfirsýn um hvað er mikið af byggingargöllum, vegna þess að byggingarstjórakerfið hefur ekki virkað sem skyldi,“ segir Jónas. „Við getum ekki vitað með vissu hversu góðar þessar byggingar eru.“

„Það var í raun stóra ástæðan fyrir því að við lögðum til nýtt kerfi, til þess að bara að ná betur utan um þetta,“ segir Jónas að lokum.

Heimild: Mbl.is