Hámarksveðsetningarhlutfall við kaup á fyrstu fasteign hækkar úr 85% í 90%.
jármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að létta tímabundið á reglum um fasteignalán til neytenda í kjölfar aukinnar óvissu á íbúðalánamarkaði.
Óvissan tengist dómi Hæstaréttar í vaxtamáli Íslandsbanka um miðjan mánuð, sem hefur þegar haft áhrif á framboð lána og skilmála þeirra.
Sérstaklega er bent á að staða fyrstu kaupenda og tekjulægri heimila hafi versnað.
Í reglum Seðlabankans um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda er kveðið á um sérstaka undanþáguheimild til að veita lán umfram hámarkshlutfall.
Undanþáguheimild lánveitenda til að veita lán umfram hámark greiðslubyrðarhlutfalls (greiðslubyrði í hlutfalli við tekjur) er hækkuð úr 5% í 10% af heildarfjárhæð veittra fasteignalána.
Við útreikning skal jafnframt horft til undangengins ársfjórðungs.
Markmiðið er að gefa lánastofnunum meira svigrúm til að mæta þörfum lántakenda á meðan óvissa ríkir um skilmála lána.
Hámarksveðsetningarhlutfall við kaup á fyrstu fasteign hækkar úr 85% í 90%. Hámarkið fyrir aðra lántaka helst óbreytt í 80%.
Nefndin vísar til þess að reglurnar hafi verið hertar í júní 2022 og að síðan hafi orðið nokkur aðlögun á fasteignamarkaði.
Samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar er breytingunum ætlað að auka svigrúm lánveitenda til að bregðast við ríkjandi óvissu, einkum gagnvart fyrstu kaupendum og tekjulægri hópum.
„Þetta er gert vegna framangreindrar óvissu og í ljósi þess að nokkur aðlögun hefur átt sér stað á fasteignamarkaði frá því að reglurnar voru hertar í júní 2022. Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra lántaka helst óbreytt í 80%,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.
Lánastofnanir eru hvattar til að nýta svigrúmið til að tryggja eðlilegt flæði lánsfjár á meðan óvissan varir.
Nefndin áréttar að hún muni áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika, þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.
Heimild: Vb.is












