Home Fréttir Í fréttum Valhöll auglýst til sölu

Valhöll auglýst til sölu

12
0
Valhöll stendur við Háaleitisbraut 1 í Reykjavík. RÚV – Ari Páll Karlsson

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, hefur verið auglýst til sölu og flokkurinn er farinn að litast um eftir nýju heimili. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ólíklegt að ný Valhöll verði byggð.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur auglýst Valhöll, höfuðstöðvar flokksins, til sölu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Þar er haft eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Sjálfstæðisflokksins, að ætlunin sé að fara í hentugra húsnæði.

„Húsnæðismál flokksins hafa verið til skoðunar í nokkuð langan tíma, sem er hluti af heildarendurskoðun á starfsemi hans til framtíðar,“ er haft eftir Guðrúnu. „Það var um margt erfið en mikilvæg ákvörðun.“

Auglýsingin birtist í morgun.
Skjáskot / fasteignir.is

Í fasteignaauglýsingunni er óskað eftir skriflegu tilboði í eignina fyrir klukkan 16:00 þann 18. nóvember. Fasteignamatið hljóðar upp á 784.050.000 krónur og brunabótamatið rúman milljarð.

Byggingin hefur í áraraðir hýst bækistöðvar flokksins en hún var reist einmitt til þess árið 1975. Guðrún segir ólíklegt að ný Valhöll verði byggð. Flokkurinn sé þegar farinn að líta í kringum sig eftir nýjum höfuðstöðvum og að þá sé helst litið til Reykjavíkur.

Heimild: Ruv.is