Home Fréttir Í fréttum Gervihnattamyndir sýna niðurrif Trumps

Gervihnattamyndir sýna niðurrif Trumps

7
0
Á þessari mynd frá Planet Labs PBC sést hvernig austurálman, hægra megin við miðju, er horfin og aðeins grunnurinn stendur eftir. Myndin er tekin í gær, 23. október. AFP/Planet Labs PBC

Búið er að rífa niður alla austurálmu Hvíta hússins, bústað Bandaríkjaforseta. Á gervihnattamyndum sést hvernig nær aðeins grunnurinn stendur eftir.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lætur rífa austurálmuna til að geta reist stóran hátíðarsal. Áætlað er að framkvæmdirnar kosti 300 milljónir bandaríkjadala.

Í austurálmunni voru skrifstofur forsetafrúarinnar.

Þessi gervihnattamynd var tekin 9. september sl. og sýnir hvernig austurálman leit út áður en hún var rifin. AFP/Planet Labs PBC

Hagkvæmara að rífa alla álmuna

Ráðist var í framkvæmdirnar með skömmum fyrirvara, en Trump kynnti upphafleg áform sín í júlí. Þá greindi hann ekki frá því að austurálman yrði rifin niður og hátíðarsalurinn byggður í stað hennar.

Trump sagði hins vegar í gær að það hefði verið mun hagkvæmara að rífa alla álmuna en að breyta henni eða rífa að hluta til að koma salnum fyrir.

Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði fjölmiðlum í gær að niðurrifið myndi ekki kosta bandaríska skattgreiðendur einn aur.

Heimild: Mbl.is