Framkvæmdir við nýjan Arnarnesveg eru í fullum gangi og mannvirkin við Breiðholtsbraut og í Elliðaárdal, sem eru hluti af því verki, eru farin að taka á sig endanlega mynd. Vinna er langt komin við uppsetningu undirsláttar og járnbendingu fyrir brúardekk brúar yfir Breiðholtsbraut. Þá er brúin yfir Dimmu nánast tilbúin. Arnarnesvegur er eitt af stofnvegaverkefnum Samgöngusáttmálans og er umsjón þess í höndum Vegagerðarinnar.


Vegstæði fyrir nýjan Arnarnesveg
Samhliða framkvæmdum við Breiðholtsbraut er unnið við fyllingar í vegstæði Arnarnesvegar, fyllingar undir stíga og landmótun á verksvæðinu. Framkvæmdir hafa nú staðið yfir í tvö ár og áætlað er að þeim verði lokið í nóvember á næsta ári.


Nýja brúin yfir Dimmu
Í Elliðaárdal er unnið við frágang göngu- og hjólastíga og nýrrar brúar yfir Dimmu, sem verður góð samgöngubót fyrir virka ferðamáta á svæðinu. Uppsetningu brúarinnar er lokið og búið er að malbika göngu- og hjólastíga sem liggja að henni. Ráðgert er að öllum frágangi verði lokið um mánaðamót. Stígarnir sitt hvoru megin við ána hafa þegar verið teknir í notkun.

Allar helstu upplýsingar um stöðu framkvæmda Samgöngusáttmálans má finna í upplýsingagátt:
Heimild: Betrisamgongur.is












