Home Fréttir Í fréttum Akureyrarbær skiptir aðallega við einn verktaka

Akureyrarbær skiptir aðallega við einn verktaka

315
0
Akureyrarbær

Framkvæmdastjórar nokkurra verktakafyrirtækja á Akureyri furða sig á því að bæjaryfirvöld beini viðskiptum sínum aðallega til eins fyrirtækis, sérstaklega í ljósi þess að bæjarstjóri boðaði breytingar fyrir einu ári síðan. Svo virðist sem framkvæmdadeildin hunsi hreinlega fyrirmæli bæjarstjóra.

<>

Þetta kemur fram í tilkynningu frá verktakafyrirtækjum sem óskuðu eftir upplýsingum úr bókhaldi Akureyrarbæjar, en meðal þessara fyrirtækja eru GV-Gröfur, G.Hjálmarsson og Malbikun KM, Garðtækni og Garðverk.

Óskað var eftir upplýsingum úr bókhaldi Akureyrarbæjar um viðskipti framkvæmdadeildar bæjarins við jarðvinnuverktaka á tímabilinu júní 2014 til nóvember 2014. Um er að ræða verkefni sem ekki þarf að bjóða út. Forsaga málsins er sú að á fundi verktaka með bæjarstjóra og fulltrúum framkvæmdadeildar þann 10. apríl 2014 voru boðaðar breytingar af hálfu bæjarins vegna slíkra viðskipta, þannig að sem mest af viðskiptunum færu í útboðsferli.

Í dag – einu ári síðar – bólar ekkert á slíkum breytingum.

Samkvæmt skráningu bæjarins á tímabilinu júní 2014 til nóvember 2014 kemur í ljós að fyrirtæki í eigu sama aðilans vann liðlega þriðjung allra fyrrgreindra verka á vegum framkvæmdadeildar bæjarins á þessu tímabili. Fyrirtækin sem bærinn átti í viðskiptum við á þessu tímabili, voru hátt í þrjátíu talsins.

“Verulegir fjármunir eru í húfi, þar sem framkvæmdadeildin er stór kaupandi á jarðvinnu ýmiskonar. Þess vegna vekur furðu að deild á vegum Akureyrarbæjar beini liðlega þriðjungi viðskipta vinna til sama aðilans, án útboða,” segir í tilkynningu.

Heimild: Vikurdagur.is